Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast verðhækkanir á matvælum

03.12.2020 - 18:15
Hráir kjötbitar í matvörubúð.
 Mynd: Koos Schwaneberg - Freeimages
Reglum um útboð á tollkvótum vegna innflutnings á búvörum verður breytt til að vernda og aðstoða innlenda matvælaframleiðendur samkvæmt frumvarpi landbúnaðarráðherra. Félag atvinnurekenda óttast að þetta leiði til mikillar hækkunar á matvælaverði.

 

Með frumvarpinu er horfið tímabundið til eldra fyrirkomulags á útboði tollkvóta sem var í gildi til loka síðasta árs. Í greinargerð með frumvarpinu segir að markmið þess sé að lágmarka áhrif kórónuveirufaraldursins á innlenda búvöruframleiðslu sem glími nú við mikinn samdrátt. Lögin eiga að vera í gildi til 1. febrúar 2022.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að verulega hafi dregið úr eftirspurn eftir íslenskum matvælum út af fækkun ferðamanna.

„Staðan snýst um það að breyta þeirri úthlutun sem við gerðum miðað við ákveðnar forsendur. Þar sem var miklu miklu meiri eftirspurn eftir íslenskum matvælum á markaði fyrir Covid. Við erum að horfast í augu við það að forsendurnar fyrir þessari breyttu úthlutunaraðferð á tollkvótum eru allt aðrar í dag heldur en þær voru fyrir tæpu ári síðan,“ segir Kristján Þór.

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að dýrara verði að flytja inn erlendar búvörur ef frumvarp ráðherra verður samþykkt óbreytt. Það leiði síðan til verðhækkana í matvöruverslunum.

„Og verður að segjast að það sætir mikilli furðu að á sama tíma og 25 þúsund manns eru á atvinnuleysisbótum þá skuli stjórnvöld ganga svona meðvitað fram í því að hækka matarverð. Það finnst eflaust mörgum matarreikningurinn nógu hár nú þegar,“ segir Ólafur.

Hann furðar sig á því að búvöruframleiðendur fái sérmeðferð hjá stjórnvöldum.

„Núna eru nánast allar innlendar atvinnugreinar í vanda vegna kórónuveirufaraldursins. Stjórnvöld hafa almennt vísað fyrirtækjunum á almenn úrræði. Styrki og lán. Sem standa til dæmis afurðastöðvum í landbúnaði til boða ekkert síður en öðrum fyrirtækjum ef þeir uppfylla skilyrðin. Það er algjörlega út úr korti að ætla, í þessari einu atvinnugrein, að grípa til sértækra úrræða  og vernda hana fyrir samkeppni,“ segir Ólafur.

Ráðherra hafnar því hins vegar að þetta leiði sjálfkrafa til hækkunar á matvælaverði.

„Það er ekkert sjálfgefið að þetta þýði hækkanir fyrir neytendur. Það er verslunin sjálf sem stýrir því hvernig hún leggur á sínar vörur,“ segir Kristján Þór.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV