Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fjármálamarkaðir vestra gætu lokast Kínverjum

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Verðbréfa- og fjármálamarkaðir Bandaríkjanna gætu lokast kínverskum fyrirtækjum á næstunni.

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag lög sem gera erlendum fyrirtækjum á markaði þar í landi að fylgja bókhaldsreglum SEC, þeirrar alríkisstofnunar sem fer með mál varðandi útgáfu, sölu og skrásetningu verðbréfa.

Fjöldi erlendra fyrirtækja uppfyllir skilyrði stofnunarinnar en kínversk gera það ekki. Auk þess gera nýju lögin ráð fyrir að kínversk fyrirtæki á markaði láti uppi hvort einverjir stjórnarmanna þeirra séu félagar í kínverska kommúnistaflokknum.

Tölur sýna að í október voru 217 kínversk félög skráð á verðbréfamarkaði í Bandaríkjunum, póstverslunarfyrirtækið Alibaba þeirra langstærst. Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur þegar samþykkt frumvarpið sem nú bíður staðfestingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta.