Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fimm látin eftir árásina í Trier 1. desember

03.12.2020 - 02:59
epaselect epa08857349 Candles and messages are placed in the aftermath of a fatal incident, at Porta Nigra in Trier, Germany, 02 December 2020 According to reports, five people died, including a two-month-old baby, and at least 15 were injured after a car plowed into pedestrians in Trier on 01 December. Police arrested the driver, a 51-year-old local man who was found to have drunk a significant amount of alcohol.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nú liggur fyrir að fimm létust þann 1. desember síðastliðinn þegar smájeppa var ekið á gangandi vegfarendur í borginni Trier í vesturhluta Þýskalands. Þeirra á meðal er níu mánaða gamalt stúlkubarn.

Þrjár konur á aldrinum 25 til 73 ára létust og faðir stúlkunnar. Eiginkona hans og ársgamall bróðir slösuðust og voru flutt á sjúkrahús til aðhlynningar. Ökumaðurinn var handtekinn umsvifalaust og reyndist mjög drukkinn en ekki er talið að stjórnmála- eða trúarskoðanir hefi verið kveikja atburðarins.

Peter Fritzen, saksóknari tjáði fréttamönnum að mögulegt væri að maðurinn ætti við geðræn vandamál að stríða. Hann er ekki á sakaskrá en bjó um skeið í bílnum, sem hann hafði að láni.

Sjónarvottar segja að vegfarendur hafi hlaupið öskrandi af skelfingu undan bílnum sem var ekið á miklum hraða um kílómetra leið um götur nærri Porta Nigra, sögufrægu rómversku hliði og einkennisbyggingu borgarinnar.

Íbúum Trier er mjög brugðið en BBC greinir frá því að atvikið hafi kveikt minningar um það þegar hryðjuverkamaður ók vörubíl inn í mannfjölda og varð tólf að bana á jólamarkaði í Berlín árið 2016.

Hinum venjubundna jólamarkaði á þessum slóðum í Trier var aflýst í ár vegna kórónuveirufaraldursins. Verslanir voru þó opnar en götupollar sem hindra akstur bifreiða höfðu ekki verið settir upp. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína á staðinn og skilið eftir skilaboð og kveikt á kertum. 

Angela Merkel Þýskalandskanslari lýsti yfir hryggð sinni vegna atviksins og sendi aðstandendum hinna látnu samúðarkveðjur. Hún sendi þeim slösuðu jafnframt batakveðjur.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV