Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fauci segir Breta stytta sér leið

03.12.2020 - 21:44
epa08691264 Anthony Fauci, director of National Institute of Allergy and Infectious Diseases at NIH, testifies during a Senate Health, Education, and Labor and Pensions Committee on Capitol Hill, in Washington, DC, USA, 23 September 2020.  EPA-EFE/Graeme Jennings / POOL
 Mynd: EPA
Anthony Fauci forstjóri ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna sakaði bresk yfirvöld um að stytta sér leið í leyfisveitingum fyrir bóluefni gegn Covid nítján. Gögnin frá framleiðandanum hafi ekki verið skoðuð.

Bresk yfirvöld tilkynntu í gær að leyfi hefði verið veitt til að nota bóluefni frá Pfizer og BioNTech og er stefnt að því að hefja bólusetningu í næstu viku. Tekið var skýrt fram að ekki væri verið að stytta sér leið þó að ferlinu hafi verið hraðað.

Anthony Fauci forstjóri ofnæmis- og smitstjúkdómastofnunar Bandaríkjanna virðist ekki leggja trúnað á það. Í viðtali við CBS líkti hann þessu við að koma inn á síðustu mílu maraþonhlaupsins. Leyfisferlinu hafi verið flýtt of mikið.

Fauci segir að ef bandaríska lyfjaeftirlitið leyfi sér slíkt myndi það skapa tortryggni og færri myndu láta bólusetja sig. Bretar hafi tekið gögn Pfizer eins og þau voru í stað þess að rýna þau vandlega.

Evrópusambandið hefur ekki tekið jafn sterkt til orða og Fauci, en þar segja menn að markmiðið sé ekki að vera fyrstur heldur að tryggja öruggt bóluefni. Efnið frá Pfizer verður staðfest hjá evrópsku lyfjastofnuninni í fyrsta lagi 10. desember.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV