
Sárafátækt gæti blasað við vegna COVID-19
AFP fréttastofan ræddi nýverið við fólk sem flest kvaðst í verri stöðu nú en fyrir fimm mánuðum þegar það missti vinnuna. Frakkinn Xavier Chergui, kvæntur, tveggja barna faðir á fimmtugsaldri segir í samtali við AFP að nú lifi fjölskyldan frá degi til dags.
Áður en faraldurinn skall á þénaði hann um 4.000 evrur á mánuði eða sem nemur ríflega 630 þúsundum íslenskra króna. Nú þarf fjölskyldan að lifa á 1.400 evrum eða 221 þúsund krónum.
Staðan varð erfið meðan á fyrsta útgöngubanninu í Frakklandi stóð en Chergui batt vonir við að birta myndi til í september. Hann hefur ekki unnið nema örfáa daga og segist láta eina máltíð á dag duga fjölskyldunni.
Leiga, rafmagnsreikningar og bílalán eru í vanskilum að sögn Cherguis en það sem eftir stendur þegar leigan hefur verið greidd fer í matarinnkaup.
Sonia Herrera, 52 ára kona frá Hondúras, búsett í Madríd á Spáni missti starf sitt sem heimilishjálp um leið og útgöngubann var fyrirskipað fyrr á árinu. Herrera býr með Alejöndru dóttur sinni, sem einnig missti vinnuna, og börnum hennar.
Sparifé þeirra er uppurið og þær reyna að ná endum saman með 1.000 evrum á mánuði, tæplega 160 þúsund krónum. Þar sem þær eru óskráðir innflytjendur eiga þær ekki rétt á lágmarkslaunum frá ríkinu. „Tilhugsunin um enn eitt útgöngubannið er skelfileg,“ segir Alejandra.
Fleiri lýsa svipuðum, skyndilegum breytingum á lífi sínu, lækkun á tekjum eða algeru hruni í afkomu. Einhverjir hafa flutt inn til foreldra sinna til að komast betur af. Margir segjast vera óttaslegnir og áhyggjufullir vegna óvissrar framtíðar sinnar.