Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gul viðvörun um allt land

02.12.2020 - 06:24
Gul viðvörun 2.12.20
 Mynd: Veðurstofa Íslands - Skjáskot
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun um allt land. Spáð er norðanstormi eða norðanhvassviðri og misjafnt er eftir landshlutum hvenær dagsins viðvörunin tekur gildi. Fólk er beðið um að tryggja lausamuni og víða er búist við lélegum akstursskilyrðum og slæmu skyggni.

Í dag er spáð vaxandi norðanátt, víða 15-23 m/s eftir hádegi og hvassara í
vindstrengjum sunnan Vatnajökuls undir kvöld. Snjókoma á
norðurhelmingi landsins, sums staðar verður talsverð ofankoma á Norðurlandi en úrkomulítið sunnan heiða. 

Frost verður 0 til 6 stig. Norðan 18-25 m/s á morgun, en 23-28 í vindstrengjum á suðaustanverðu landinu. Snjókoma eða él norðan- og austanlands.
Úrkomulaust verður að mestu sunnan heiða, en þó sums staðar lítilsháttar él.
Frost 2 til 8 stig.

Á höfuðborgarsvæðinu gengur í norðan 10-15 m/s í dag, en hvassara á Kjalarnesi seinnipartinn. Lítilsháttar él og frost 0 til 4 stig. Norðan 13-20 á morgun og áfram hvassara á Kjalarnesi.  Líkur á dálitlum éljum og frost 2 til 7 stig.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir