Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Grímulaus til vandræða í verslun

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu á tíunda tímanum í gærkvöldi um að tveir menn hefðu veist að einum í miðborginni.

Í dagbók lögreglu segir að árásarmennirnir hafi verið horfnir af vettvangi þegar hana bar að. Sá sem fyrir atlögunni varð var fluttur á slysadeild.

Tilkynnt var um átök tveggja manna í Kópavogi í nótt en þegar lögregla kom á staðinn hafði annar komið sér á brott en hinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Bæði þessi mál eru til rannsóknar.

Síðdegis í gær var maður til vandræða í matvöruverslun í austurborginni, að sögn grímulaus og í annarlegu ástandi. Óskað var aðstoðar lögreglu þegar maðurinn neitaði að fylgja reglum starfsmanna en hann var horfinn á braut þegar lögreglumenn komu í verslunina.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins þurfti að sinna tveimur útköllum í gærkvöldi vegna fjúkandi lausamuna auk þess sem það þurfti að koma í veg fyrir vatnsleka í nótt. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV