
Ástandið í Líbanon hefur verið afar slæmt undanfarin ár. Í október á síðasta ári hófust mótmæli vegna áformaðra hækkana á eldsneyti og öðrum vörum og þjónustu. Einnig var mótmælt miklu atvinnuleysi og lélegri grunnþjónustu, þar á meðal takmörkuðu aðgengi að vatni og rafmagni.
Mótmælin snerust svo upp í andóf gegn ráðandi öflum í landinu og voru forystumenn stjórnmálaflokka og embættismenn sakaðir um spillingu.
Þrátt fyrir að mótmælendur væru beittir hörðu var ekkert lát á aðgerðum þeirra og lofuðu þá stjórnvöld bót og betrun og stjórnin sagði af sér, en enn hefur þó ekki tekist að mynda nýja og starfhæfa stjórn. Ný stjórn virðist ekki í sjónmáli.
Fjöldi flóttamanna í landinu frá Sýrlandi hefur auk þess sett strik í reikninginn og ekki bætti úr skák sprengingin í Beirút fyrir fjórum mánuðum þar sem um 200 fórust og mikil eyðilegging varð.
Frakkar, fyrrverandi nýlenduherrar, hafa reynt allt hvað þeir geta til að fá líbanska stjórnmálaflokka til að samþykkja umbætur og breytingar á stjórnkerfi landsins og er haft eftir heimildarmönnum tengdum ráðstefnunni að mikill þrýstingur sé í þá veru, sem geti skipt sköpum um hvort Líbanar fái víðtækan stuðning frá þátttakendum á ráðstefnunni.