Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Fangelsi bíður andófsfólks í Hong Kong

02.12.2020 - 03:27
epa08856267 Pro-democracy activists Joshua Wong Chi-fung (C) and Ivan Lam Long Ying (L) prepare to board a court-bound vehicle at the Lai Chi Kok Reception Centre in Hong Kong, China, 02 December 2020. Wong, Lam and fellow activist Agnes Chow Ting pleaded guilty to incitement, knowingly taking part in an unauthorised assembly, organising an unauthorised assembly and knowingly taking part in an unauthorised assembly related to a rally on 25 June 2020.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dómur verður kveðinn upp í dag yfir þeim Joshua Wong, Ivan Lam og Agnesi Chow fyrir að egna til mótmæla í Hong Kong á síðasta ári. Þau gætu átt yfir höfði sér allt að þriggja ára fangvelsisvist.

Þau lýstu öll yfir sekt sinni á dögunum þegar þau voru ákærð fyrir andóf gegn Kínastjórn með því að hafa skipulagt mótmæli við lögreglustöð í borginni síðasta sumar. Þau hafa setið í varðhaldi síðan þau játuðu.

Wong skrifaði á Twitter í gær að hann væri í einangrun, en að allt sem þau hefðu þurft að ganga í gegnum styrkti þau í baráttunni fyrir lýðræði og réttlæti.

Andóf allt frá unglingsárum

Þremenningarnir eru á þrítugsaldri en hafa tekið þátt í baráttu lýðræðishreyfingarinnar í Hong Kong frá því þau voru táningar. Til að mynda skipulögðu þau andóf 2012 gegn áformum um að gera menntakerfi Hong Kong þjóðhollara.

Tveimur árum síðar tóku þau þátt í svokallaðri regnbogahreyfingu stúdenta í landinu sem krafðist almenns kosningaréttar í héraðinu. Í kjölfar 79 daga mótmælahrinu voru leiðtogar hreyfingarinnar fangelsaðir, Wong þar á meðal, sem dró úr slagkrafti hennar um hríð.

Í júní 2019 kveiktu áform Kínastjórnar um flutning grunaðra glæpamanna til Kína nýja bylgju mótmæla sem stóðu yfir í sjö mánuði samfleytt. Wong, Chow og fleiri úr hópi mótmælenda nýttu sér frægð sína til að kalla eftir alþjóðlegum stuðningi við málstað sinn.

Það reitti stjórnvöld í Peking mjög til reiði enda voru mótmælendurnir kallaðir föðurlandssvikarar í kínverskum fjölmiðlum. Fyrr í sumar tóku ströng öryggislög gildi í Hong Kong sem til að mynda banna tilteknar stjórnmálaskoðanir og andóf gegn Kínastjórn.

Yfir 10 þúsund handtekin

Hörð viðurlög eru við hvers kyns niðurrifsstarfsemi og leynilegum samskiptum við erlend öfl. Agnes Chow liggur undir grun um slíkt fyrir að hafa hvatt erlend ríki til beita Kínverja refsiaðgerðum.

Yfir 10 þúsund andófsmenn hafa verið handteknir í Hong Kong undanfarna átján mánuði og stærstur hluti forvígismanna lýðræðishreyfingarinnar á ákæru yfir höfði sér.

Isaac Cheng, vinur Wongs og varaformaður í niðurlögðum stjórnmálaflokki þeirra, segir Kínastjórn ekki eingöngu eltast við andófsfólk, hver sem er geti mátt búast við rannsókn.

„Við héldum að Hong Kong tilheyrði okkur, en nú er það orðið glæpur að hugsa á annan hátt en ríkisstjórnin,“ segir Cheng.