Eru Andrés utan gátta og Jón á Völlunum fundnir?

íslenskir jólasveinar
 Mynd: Ragnar Th Sigurðsson

Eru Andrés utan gátta og Jón á Völlunum fundnir?

02.12.2020 - 21:29

Höfundar

„Jólasveinar einn og átta ofan komu af fjöllunum. Í fyrrakvöld þeir fóru að hátta, fundu hann Jón á Völlunum,“ segir í alþekktum jólasöng, og síðar kemur: „Andrés stóð þar utan gátta“. En hverjir eru Jón á Völlunum og Andrés? Hugsanlega er nú komið svar við því.

Jólasveinar einn og átta

Flestir þekkja jólasönginn „Jólasveinar einn og átta“. Lagið er erlent, stundum eignað Percy Montrose. Kvæðið er hins vegar íslensk þjóðvísa og oftast haft eitthvað á þessa leið:

Jólasveinar einn og átta

ofan komu´ af fjöllunum,

í fyrrakvöld þeir fóru´ að hátta,

fundu´hann Jón á Völlunum.

Andrés stóð þar utan gátta,

það átti´ að færa´ hann tröllunum.

Þá var hringt í Hólakirkju

öllum jólabjöllunum.

En hverjir eru þessir Andrés og Jón á Völlunum? Og hvað koma þeir jólasveinunum við? Menn hafa oft velt því fyrir sér og hefur jafnan orðið fátt um svör. Nýlega gerði hins vegar Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur uppgötvun sem hugsanlega skýrir hverjir Andrés og Jón á Völlunum eru og líka hvers vegna jólasveinarnir eru einn og átta.

Andrés plyttur grafinn í banni erkibiskups

Lára hefur skrifað um þetta grein í tímaritið Andvara. Þar bendir hún á það að margt sé líkt með vísunni og kafla úr bréfi sem sent var til Íslands frá Björgvin í Noregi árið 1283. Það var Loftur Helgason ráðsmaður í Skálholti sem staddur var í Björgvin og skrifaði bréfið Árna Þorlákssyni Skálholtsbiskupi. Þar segir:

Margir harðir hlutir hafa í Noregi gjörst milli kóngs og erkibiskups og annarra lærðra manna. Herra Andrés plyttur grafinn í banni erkibiskups í Postulakirkju, og brotinn stöpullinn að Kristskirkju af herra Bjarna kanzler til að hringja móti líkinu og svo var hringt um allan bæinn í banni kennimanna.

Þarna er þrennt sem á sér hliðstæðu í kvæðinu. Í fyrsta lagi nafnið Andrés. Í öðru lagi það að Andrés er bannfærður, en bannfærða menn mátti hvorki grafa í kirkju né kirkjugarði, sem er hliðstætt því að það eigi að færa hann tröllunum. Í þriðja lagi er það klukknahringingin. Norskir höfðingjar, vinir Andrésar, taka málin í sínar hendur, þeir grafa hann í kirkju þrátt fyrir bannið og hringja kirkjuklukkum.

Einn og átta

Bréfkaflinn er birtur í Árna sögu biskups sem rituð var skömmu eftir aldamótin 1300, aðeins fáeinum áratugum eftir að atburðirnir gerðust. Við erum komin þarna í hringiðu deilna milli kirkju, konungs og höfðingja á 13. öld. Noregskonungur, Eiríkur Magnússon, kallaður prestahatari, á í deilum við kirkjuna. Nokkrir kirkjunnar menn reyna að bjóða honum byrginn, þar á meðal Árni biskup í Skálholti. Eiríkur konungur sendir mann sinn, Loðinn lepp, til Íslands með nýja lögbók sem á að taka gildi, en Íslendingar höfðu nokkrum árum áður gengist Noregskonungi á hönd. Á Alþingi samþykkja flestir lögbókina eftir nokkrar deilur,“utan níu menn þeir sem byskupi fylgdu“ segir í Árna sögu biskups. Þeir eru síðan taldir upp:

Var fyrstur af þeim Arngrímur Teitsson, annar Snorri úr Ásum, Ormur frá Reyni, Ásleifur Klængsson, Eilífur son Össurar frá Horni, Sigfús Stobbi, Magnús Pétursson og Loftur Helgason.

Hér eru reyndar aðeins 8 nöfn og hlýtur að vanta eitt nafnið því búið er að taka skýrt fram að mennirnir hafi verið níu – þ.e.a.s. einn og átta. Loðinn kallar menn þessa landráðamenn og það er meðal annars þess vegna sem einn þeirra, Loftur Helgason, fer til Noregs, hann ætlar að tala máli þeirra nímenninga og biskups við konung.

Á Jónsvöllum

Loftur fer með bréf frá Árna Skálholtsbiskupi til Eiríks konungs. Svo segir í Árna sögu biskups:

Það skip sem Loftur var á tók Noreg og kom hann um haustið til Björgvinjar og var í bræðra garði um veturinn. Ei kom hann fyrr fram bréfi því sem hann fór með en nær veturnóttum á Jónsvöllum, ekki gat hann við kóng talað annað, en heilsað á hann, því að honum var bannað að koma á kóngs garð. Þó var hann í minnisdrykkju með hirðmönnum, en var þó utan brautar, og stóð undir heitum og illyrðum.

Þarna er sem sé Jón á Völlunum kominn líka, það er á Jónsvöllum sem Loftur getur loksins komið bréfinu til skila.

Í þættinum „Á tónsviðinu“, fim. 3. des. tekur Una Margrét Jónsdóttir viðtal við Láru Magnúsardóttur sagnfræðing um þessa uppgötvun hennar og flutt verða mismunandi lög við kvæðið „Jólasveinar einn og átta“.