EM hefst á morgun - Danir staðið í ströngu

Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX

EM hefst á morgun - Danir staðið í ströngu

02.12.2020 - 20:26
Evrópumót kvennalandsliða í handbolta hefst í Danmörku á morgun. Upphaflega áttu Norðmenn að halda mótið með Dönum, en urðu að gefa það frá sér seint í nóvember vegna COVID-19. Danir hafa staðið í ströngu svo hægt sé að halda mótið í miðjum heimsfaraldri, því að mörgu þarf að hyggja.

Torben Junker Andersen er að gera keppnishöllina í Kolding klára fyrir fyrstu leiki EM á morgun. Sóttvarnarkröfurnar eru miklar.

„Þetta eru umfangsmiklar kröfur, sérstaklega vegna kófsins. Svo húsið er að hluta til lokað.“

Og sóttvarnarplanið á mótinu er afar strangt og mikið um hólfaskiptingu.

Joy Morgensen menningarmálaráðherra Dana segir að ráðamenn í landinu hafi þurft að svara þeirri spurningu hvort það væri yfir höfuð forsvaranlegt að halda EM í handbolta á þessum tímum.

„Það hefur verið mikilvægt að handboltasambandið hefur lagt fram áætlun um hvernig skal einangra liðin. Ef reglur verða brotnar er það handboltasambandsins að taka á því.“

Tilhlökkunin hjá landsliðsþjálfara Dana er mikil að byrja mótið.

„Við hlökkum mikið til og leggjum okkar öll fram við að fá Dani til að brosa og svo sjáum við til þess að ekki dreifist neitt smit.“

Leikmenn munu ekki hafa neinn aðgang að búningsklefum á meðan mótinu stendur heldur þurfa að koma fullbúnir á staðinn og fara í sturtu eftir leiki á hótelinu. RÚV mun sýna meirihluta leikja frá EM kvenna í handbolta.

Á morgun sýnum við viðureign Rússlands og Spánar klukkan korter yfir fimm sýnd á RÚV 2 og svo mætir Þórir Hergeirsson með sínar konur í norska liðinu á móti Póllandi í leik klukkan hálfátta sem verður líka sýndur á RÚV 2.