Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Búast má við fimbulkulda síðar í vikunni

02.12.2020 - 01:41
Mynd með færslu
 Mynd: Ísnálar á Egilsstöðum - RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að í vikunni stefni í mesta kulda á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2013. Veðurstofan spáir sex til sjö stiga frosti og vindi allt að tíu metrum á sekúndu á fimmtudag og föstudag.

„Hreinræktað heimskautaloft" segir Einar á vef sínum blika.is um norðanloftið sem steypist yfir Ísland en að kjarni þess fari suður yfir vestanvert landið. 

„Í N-átt verður  hvassast vestan Kvosarinnar og út á Seltjarnarnesi og Álftanesi.  Þá heldur minna frost.  Austar er aukið Esjuskjól, en meira frost á móti.“ 

Einar segir að vindkælingartöflur sýni að samspil frosts og vinds þessa daga jafngildi 16° frosti. Einar segir að dagana 4. til 6. desember 2013 hafi aðstæður verið svipaðar, frost meira en vindur hægari.

Hann hvetur fólk til að klæða sig vel, klæðast skjólgóðu höfuðfati, ullarvettlingum og hlýjum vetrarskóm. Jafnframt segir hann rétt að dúða leikskólabörn. 

Einar lýsir vetrarkulda þannig að hann sé almennt og í stórum dráttum tvenns konar. Annars vegar þegar er hæglátt vður og stjörnubjart. Þá kólni yfirborðið og frost í tveggja metra hæð mælist mikið. Ofar sé oft hlýrra og því segir Einar ekki endilega svo kalt loft á ferðinni. 

„Hin gerðin er þegar loftið kemur frá köldum svæðum með strekkingi og stundum hvassri norðanátt.  Þá mælist kannski ekki jafn mikið frost, en það bítur í vindinum.“

Einar kveður að áður fyrr megi auðveldega finna dæmi um kaldari tilvik en það sem nú er fyrir dyrum, til að mynda á árunum 1965 til 1985.

 

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV