Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tilkynna í dag um næstu skref í sóttvarnaaðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sem tók gildi þann 18. nóvember fellur úr gildi á miðnætti í kvöld. Ríkisstjórnin kemur saman til fundar snemma í dag og má búast við að ráðherrar taki þar til umræðu næstu reglugerð heilbrigðisráðherra og tilkynni svo um næstu sóttvarnaaðgerðir síðar í dag.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögum sínum um næstu skref í sóttvarnaaðgerðum og á upplýsingafundi Almannavarna í gær vildi hann ekki greina frá því sem hann hefur lagt til. Hann sagði að ekki væri rými til almennra tilslakana og að til greina kæmi að ólíkar reglur giltu milli landshluta. Stjórnvöld myndu tilkynna um næstu skref í dag.

Hvað felst aftur í núgildandi reglugerð?

Samkvæmt þeirri reglugerð sem fellur úr gildi á miðnætti mega að hámarki tíu koma saman. Á öllum samkomum skal tryggja að hægt sé að hafa að minnsta kosti tvo metra milli fólks sem ekki er í nánum tengslum. Andlitsgrímur skal nota í almenningssamgöngum, í verslunum og annarri þjónustu og alltaf þegar ekki er unnt að tryggja tveggja metra nálægðartakmörkun.

Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaðar, sem og skemmtistaðir og krár. Öðrum veitingastöðum með heimild til áfengissölu þarf að loka fyrir klukkan 21:00. 

Íþróttir fullorðinna fæddra 2004 og fyrr, þar með taldar æfingar og keppnir, hvort sem er innan- eða utan­dyra, með eða án snertingar, eru óheimilar. Einstaklingsbundnar æfingar fullorðinna fæddra 2004 og fyrr án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing. Æfingar og íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri, inni og úti, með og án snertingar eru heimilar. Sviðslistir, og sambærileg starfsemi, eru óheimilar.