
Segir rafbílavæðingu tvöfalda raforkunotkun heimsins
Þetta sagði Musk í erindi sem hann flutti frá Berlín í Þýskalandi á vef dagblaðsins Bild. Hann er ekki fyrstur til að ljá máls á þörfinni til að auka orkuframleiðslu til að standa straum af rafbílavæðingu en þar sem hann er forstjóri stærsta framleiðanda slíkra ökutækja í heimi bera orð hans mikið vægi í þessum efnum.
„Það tekur 20 ár að rafbílavæða bílaflotann algjörlega. Líkt og með farsíma, þá er ekki hægt að skipta þeim öllum út í einu,“ sagði Musk. Talið er að um 5 prósent bíla séu endurnýjaðir á heimsvísu árlega.
Forstjórinn sagði aukna eftirspurn eftir raforku leiða til þess að þróa þyrfti fullkomnari aðferðir til að geyma raforku sem framleidd er með orkugjöfum á borð við vind og sól. Rafhlöður væru ein lausn á þeim vanda. Auk þess að framleiða rafbíla er Tesla stór framleiðandi slíks tæknibúnaðar.
Fyrirtækið hyggst opna sína fjórðu risaverksmiðju í Þýskalandi. Musk sagðist í erindi sínu kunna vel við sig í landinu og verkfræðimenning landsins væri heillandi. Þjóðverjar væru hamhleypur til verka og framleiddu bestu vindtúrbínur heims.