Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir rafbílavæðingu tvöfalda raforkunotkun heimsins

01.12.2020 - 23:55
epa06233680 CEO of Tesla, Elon Musk delivers a presentation at the International Astronautical Congress (IAC) in Adelaide, South Australia, Australia, 29 September 2017.  EPA-EFE/MORGAN SETTE  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA
Elon Musk forstjóri rafbílaframleiðandans Tesla segir að ef rafbílavæða eigi bílaflota heimsins tvöfaldist raforkunotkun á heimsvísu. Nauðsyn sé að auka raforkuframleiðslu með grænum aðferðum til að anna aukinni eftirspurn.

Þetta sagði Musk í erindi sem hann flutti frá Berlín í Þýskalandi á vef dagblaðsins Bild. Hann er ekki fyrstur til að ljá máls á þörfinni til að auka orkuframleiðslu til að standa straum af rafbílavæðingu en þar sem hann er forstjóri stærsta framleiðanda slíkra ökutækja í heimi bera orð hans mikið vægi í þessum efnum.

„Það tekur 20 ár að rafbílavæða bílaflotann algjörlega. Líkt og með farsíma, þá er ekki hægt að skipta þeim öllum út í einu,“ sagði Musk. Talið er að um 5 prósent bíla séu endurnýjaðir á heimsvísu árlega.

Forstjórinn sagði aukna eftirspurn eftir raforku leiða til þess að þróa þyrfti fullkomnari aðferðir til að geyma raforku sem framleidd er með orkugjöfum á borð við vind og sól. Rafhlöður væru ein lausn á þeim vanda. Auk þess að framleiða rafbíla er Tesla stór framleiðandi slíks tæknibúnaðar.

Fyrirtækið hyggst opna sína fjórðu risaverksmiðju í Þýskalandi. Musk sagðist í erindi sínu kunna vel við sig í landinu og verkfræðimenning landsins væri heillandi. Þjóðverjar væru hamhleypur til verka og framleiddu bestu vindtúrbínur heims.

epa08418243 Tesla electric vehicles ready for transport at the Tesla's vehicle factory in Fremont, California, USA, 12 May 2020. CEO Elon Musk announced he was defying Alameda County (local officials) coronavirus COVID-19 non-essential business shut-down orders.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA