Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

MAST telur niðurskurð nauðsynlegan á Syðri-Hofdölum

01.12.2020 - 17:34
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Matvælastofnun segir það ekki ekki verjandi að hverfa frá niðurskurði á fé á bænum Syðri-Hofdölum. Riða kom upp á bænum fyrr í haust en ábúendur óskuðu eftir því að aðeins hluti stofnsins yrði skorinn niður.

Matvælastofnun segir að líklegt sé að riðusmit sé til staðar í hjörðinni og því sé það ekki verjandi að hverfa frá lögbundnum aðgerðum sem leitt getur til frekari útbreiðslu veikinnar. Niðurskurður sé nauðsynlegur til að hefta útbreiðslu riðunnar.

„Margar smitleiðir voru á milli fjárins sem umgekkst hrútinn sem greindist með riðu og allrar hjarðarinnar, sérstaklega í sauðburði en þá er smithætta mest. Þó riða hafi ekki greinst í fénu sem umgekkst hrútinn beint, er ekki þar með sagt að það hafi ekki verið smitað.“ segir í tilkynningu frá MAST.

Þá tilgreininig stofnunin að ástæður þess að hjörðin sé líklega smituð séu að meðgöngutími riðu sé að jafnaði tvö til þrjú ár, en geti verið allt að fimm ár. Meðgöngutími er sá tími frá því að kind fær í sig smit og þar til einkenni koma fram. Aðeins 10 mánuðir voru liðnir frá því smitaði hrúturinn kom í afmarkaðan hóp hjarðarinnar, litlar líkur eru því á að einkenni riðusmits sé komið fram í fénu.

Næmi prófsins sem notað er til að greina riðusmit getur verið talsvert lágt, eða um 66 prósent. Þess vegna finnst ekki riðusmit í öllum kindum þó þær séu smitaðar. Næmið fer meðal annars eftir því hversu langur tími er liðinn frá smiti. 

„Greining gripanna í október var eingöngu gerð í rannsóknaskyni, því upphaf riðusmitsins á bænum var þekkt og því einstakt tækifæri til að skoða hvort smitefnið fyndist í eitlum eða heila eftir svo skamman smittíma.“ segir í tilkynningu.

MAST sendi Atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu þennan rökstuðning sinn við andmælum sem Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar sendi til ráðuneytisins fyrir hönd ábúenda á Syðri Hofdölum. Því hafnaði ráðuneytið beiðninni um að niðurskurður verði stöðvaður.