Ísland er komið á EM 2022

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Ísland er komið á EM 2022

01.12.2020 - 21:08
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta verður á meðal þátttökuþjóða á EM í fótbolta árið 2022. Þetta var ljóst eftir að leikjum kvöldsins í undankeppni EM lauk nú fyrir stundu.

Ísland vann Ungverjaland í dag, 1-0, og íslenska liðið lauk því undankeppninni með 19 stig og í 2. sæti á eftir Svíþjóð í riðlinum. 

Riðlarnir eru níu talsins og komast þau lið sem enda í efsta sæti hvers riðils beint á EM. Auk þeirra gátu þrjár þjóðir tryggt sér sæti á EM, og sloppið við umspilið, þrátt fyrir að lenda í 2. sæti síns riðils. 

Eftir sigurinn í dag var ljóst að staða Íslands væri góð en þó þurftu okkar konur að treysta á önnur úrslit til þess að sleppa við umspilið. 

Austurríki var ein þeirra þjóða sem gat gert Íslandi grikk í kvöld en til þess þurfu þær austurrísku að vinna Serbíu með tveimur mörkum eða meira. Það gekk ekki eftir, Austurríki vann 1-0, og því ljóst að Austurríki getur ekki komist upp fyrir Ísland.

Belgía og Sviss áttust einnig við í kvöld en þar gátu bæði lið tryggt sér efsta sæti síns riðils með sigri. Það eina sem skipti Ísland máli úr þeim leik var að annað hvort liðið myndi fá þrjú stig því þá sæti hitt liðið eftir í baráttunni við Ísland. Belgía vann leikinn 4-0 og tryggði sér um leið EM-sætið í H-riðlinum en Sviss þarf að fara í umspilið.

Þrátt fyrir að fleiri leikir séu enn eftir í undankeppninni þurfa íslensku landsliðskonurnar ekki að hafa áhyggjur af þeim, Ísland verður á meðal þátttökuþjóða á EM í Englandi árið 2022.