Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hélt syni sínum innilokuðum við illan kost í 28 ár

01.12.2020 - 03:30
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Sjötug kona var í gær handtekin í Stokkhólmi eftir að upp komst að hún hefur haldið syni sínum innilokuðum við illan kost á heimili þeirra mæðgina í rúmlega 28 ár, eða frá því að hann var 12 ára gamall. Frænka konunnar, sem hafði lengi alið með sér grun um að ekki væri allt með felldu, braust inn í íbúð hennar að kvöldi sunnudags og fann þar frænda sinn fyrir, afar illa á sig kominn og hringdi eftir sjúkrabíl.

Það var svo starfsfólk Karolinska sjúkrahússins sem hafði samband við lögreglu, eftir að skoðun á manninum leiddi í ljós hve alvarlegt ástand hans er.

Hræddur, vannærður og kaunum hlaðinn

Sænskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi verið hræddur, alvarlega vannærður, tannlaus, kaunum hlaðinn og átt erfitt um hvort tveggja mál og gang. Sænska blaðið Expressen hefur eftir konunni sem fann hann að hún hafi ákveðið að brjótast inn í íbúð frænku sinnar þegar hún frétti að hún hefði verið flutt á sjúkraús. Þegar inn var komið fékk hún svo allar sínar verstu grunsemdir staðfestar.

Eins og að ganga inn í hryllingsmynd

„Þetta var eins og að ganga beint inn í hryllingsmynd," hefur sænska blaðið Expressen eftir konunni, sem segir skelfilegt að hugsa til þess að móður mannsins skuli hafa tekist að villa um fyrir ættingjum sínum, nágrönnum og félagsmálayfirvöldum í öll þessi ár.

Hún segir móðurina hafa innrætt drengnum frá barnæsku að samfélagið allt væri á móti þeim mæðginum og að hún ein væri fær um að gæta hans. Þegar drengurinn var á þrettánda ári hafi hún svo tekið hann úr skólanum, og hann ekki sést eftir það, fyrr en nú.

Svikinn af samfélaginu öllu

Konan segist hafa reynt að vekja athygli á því fyrir áratugum, að þessi frænka hennar stefndi andlegri heilsu og velferð sonarins í voða. Enginn í fjölskyldunni hafi þó viljað gera neitt með þessar áhyggjur hennar og hún hafi á endanum gefist upp.

Áhyggjurnar af því að eitthvað mikið væri að héldu þó áfram að naga hana í gegnum árin og þegar hún heyrði af sjúkrahúsvist frænkunnar lét hún loks til skarar skríða og áfallið var mikið þegar hún sá skelfilegt ástandið á frænda sínum.

„Móðir hans er sek um þetta, en hann hefur líka verið svikinn af samfélaginu öllu," hefur Expressen eftir henni. Hin sjötuga móðir mannsins hefur verið handtekin, grunuð um ólögmæta frelsissviptingu og grófar líkamsmeiðingar. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV