
Engar sannanir fyrir kosningasvindli í Bandaríkjunum
William Barr dómsmálaráðherra sagði í viðtali við AP-fréttastofuna í kvöld að ekkert benti til þess að kosningasvik hefðu verið með þeim hætti að nokkur áhrif hefðu haft á niðurstöður forsetakosninganna. Demókratinn Joe Biden bar þar sigur úr býtum gegn sitjandi forseta, repúblikanum Donald Trump.
Trump hefur höfðað mál í þeim ríkjum þar sem hann laut í lægra haldi og ítrekað haldið því fram, án nokkurra sannanna, að umfangsmikil brögð hafi verið í tafli. Flestum þeim málum hefur verið vísað frá dómi.
Meðal annars hefur Trump sagt að átt hafi verið við kosningavélar til að auka við atkvæðafjölda Bidens. Barr segir ráðuneyti sitt hafa skoðað málið en „ekkert fundið“ sem benti til svika.
Rudy Guilliani og Jenna Ellis, lögfræðingar forsetans, sögðu í yfirlýsingu að með fullri virðingu fyrir dómsmálaráðherranum að þá hefði málið augljóslega ekki verið skoðað gaumgæfilega.