Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Allt lokað og læst kvölds og nætur og helgarnar allar

01.12.2020 - 05:34
epa08853506 People wearing face mask as they arrive to the Asia side with ferry from Europe, amid the ongoing coronavirus pandemic in Istanbul, Turkey, 30 November 2020. Turkey will impose curfews on weekdays and full lockdowns over weekends to combat the spread of the coronavirus, President Tayyip Erdogan said on Monday, after new cases and deaths hit records highs in recent weeks.  EPA-EFE/SEDAT SUNA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tyrknesk stjórnvöld hafa sett strangar sóttvarnareglur sem kveða meðal annars á um útgöngubann um nætur í miðri viku og algjört útgöngubann og víðtækar lokanir um helgar. Ástæðan er sú sama og annars staðar þar sem gripið er til aðgerða af þessu tagi; mikil fjölgun COVID-19 tilfella að undanförnu.

Metfjöldi dauðsfalla átta daga í röð

Tyrknesk heilbrigðisyfirvöld birtu til skamms tíma einungis tölur yfir þá COVID-19 sjúklinga, sem sýndu einkenni. Í síðustu viku var aftur byrjað að birta heildarfjölda nýsmita og hafa þau verið í kringum 30.000 á degi hverjum.

Í gær greindust fleiri með kórónaveiruna í Tyrklandi en nokkru sinni fyrr, eða 31.219, og dauðsföll af völdum COVID-19 voru 188, sem er líka met. Var gærdagurinn áttundi dagurinn í röð, sem þetta dapurlega met var slegið í Tyrklandi.

Útgöngubann kvölds og nætur og liðlanga helgina

Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, tilkynnti hinar hertu sóttvarnaaðgerðir í framhaldi af ríkisstjórnarfundi í gær. Frá og með deginum í dag gildir útgöngubann frá níu á kvöldin til fimm að morgni á virkum dögum.

Algjört útgöngubann, nema til að sinna brýnustu erindum, verður svo í gildi frá klukkan níu á föstudagskvöldum til fimm á mánudagsmorgni. Nær allar verslanir og fyrirtæki verða lokuð alla helgina, en matvöruverslanir og heimsendingaþjónusta veitingastaða eru undanþegin á ákveðnum tímum dags.

Þá er fólki yngra en tvítugu og eldra en sextíu og fimm ára óheimilt að nota almenningssamgöngur, 30 manna hámark er í útförum og brúðkaupum og öllum opinberum hátíðarhöldum um áramótin hefur verið aflýst.

Samtök heilbrigðisstarfsfólks véfengir opinberar tölur

Heilbrigðisráðuneytið tilkynnti í gær að heildarfjöldi smitaðra í landinu væri  yfir 500.000 og að alls hefðu 13.746 dáið úr COVID-19 frá upphafi faraldursins. Al Jazeera segir samtök tyrknesks heilbrigðisstarfsfólks draga tölur hins opinbera í efa og áætla að minnst 50.000 manns smitist á dag.

Jafnframt vöruðu samtökin við því í gær, að tyrkneskir ríkisspítalar væru komir að þolmörkum og yfirfullir. Heilbrigðisyfirvöld lýstu því hins vegar yfir að 70 prósent gjörgæslurýma væru í notkun en 30 prósent enn laus. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV