Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Afar hvasst víða um land

01.12.2020 - 22:28
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Gular viðvaranir eru í gildi víða um land vegna óveðurs. Vindhviður yfir 40 metrum á sekúndu hafa mælst í Mýrdal og vindur milli 23-28 metrum á sekúndu undir Eyjafjöllum. Holtavörðuheiðin er lokuð og eitthvað hefur verið um útköll björgunarsveita vegna foks á lausamunum.

Flughált er á Dynjandisheiði, Örlygshafnarvegi, á Strandavegi og nokkrum öðrum fáfarnari leiðum. Snjóþekja er á Bjarnafjarðarhálsi og á Hálfdán en krapi á Kleifaheiði og á Þröskuldum. Víða annarsstaðar er hálka eða hálkublettir að sögn Vegagerðarinnar.

Fyrr í kvöld var nokkuð um útköll björgunarsveita á Suðvesturhorninu vegna þess að lausamunir og þakplötur fuku.

Ekkert ferðaveður er víðast hvar um landið og gular viðvarandir í gildi næsta sólarhringinn.

Veðurstofan gerir ráð fyrir vaxandi norðanátt á morgun, víða 15-23 m/s eftir hádegi og hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls síðdegis. Snjókoma á norðurhelmingi landsins, sums staðar talsverð ofankoma á Norðurlandi, en úrkomulítið sunnan heiða. Frost 0 til 6 stig.