Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

10-15% bólusettra finna fyrir vægum aukaverkunum

Moncef Slaoui, aðal vísindaráðgjafi bóluefnaáætlunar Bandaríkjastjórnar, Warp Speed.
 Mynd: epa
Allt að 15 af hverjum 100 sjálfboðaliðum í prófunum á bóluefnum Pfizer og Moderna gegn COVID-19 hafa fundið fyrir „vel merkjanlegum aukaverkunum“ af lyfjunum, segir læknirinn Moncef Slaoui, aðal vísindaráðgjafi bóluefnaáætlunar Bandaríkjastjórnar. Aukaverkanirnar eru þó ekki alvarlegar, minna helst á flensu og líða hjá á 24-36 tímum.

Bóluefnaáætlunin, sem gengur undir heitinu Warp Speed, er samvinnuverkefni stjórnvalda og lyfjafyrirtækja vestra um framleiðslu á skilvirku og öruggu bóluefni við COVID-19 sem allra fyrst.

Flensueinkenni í hálfan annan sólarhring „ásættanleg býti“

Að sögn Slaouis hefur hluti sjálfboðaliðanna sem bólusettir hafa verið með efnum Pfizer og Moderna upplifað ýmis flensueinkenni í kjölfar bólusetningarinnar, svo sem ógleði, vöðva- og beinverki, höfuðverk og kuldaköst. „Ég mundi telja að það séu kannski 10 til 15 prósent hinna bólusettu sem finna vel merkjanlegar aukaverkanir, sem vara venjulega ekki lengur en 24 til 36 tíma og hverfa svo,“ sagði Slaoui í viðtali við CNN í gær.

„Flest fólk mun finna fyrir mun minni aukaverkunum sem, í sannleika sagt, miðað við 95 prósenta vörn gegn sýkingu sem getur reynst banvæn eða verulega veiklandi, eru ásættanleg býti, að mínu mati.“

Mögulegar langtíma-aukaverkanir eiga eftir að koma í ljós

Slaoui sagði mögulegar langtíma-aukaverkanir annað og mikilvægara mál. Bæði lyfjafyrirtækin hafa sótt um flýtimeðferð hjá bandaríska lyfjaeftirlitinu vegna aðstæðna, og stefna að því að setja bóluefni sín á markað áður en árið er úti.

Slaoui segir að þótt 90-95 prósent aukaverkana þessara tveggja bóluefna séu væntanlega þegar komnar fram og þær séu tiltölulega vægar, þá eigi mögulegar langtímaaukaverkanir eftir að koma í ljós og við þeim verði brugðist þegar og ef þær birtast.