„Vissum að hún væri að deyja“

Mynd: Íslenska óperan / RÚV

„Vissum að hún væri að deyja“

30.11.2020 - 12:22

Höfundar

Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur þykir það stundum vandræðalegt hve hrifin hún er af óperum. Minning af óperunni Toscu, sem hún fór á með veikri móður sinni, er henni hjartfólgin.

Íslenska óperan er 40 ára í ár. Af því tilefni er litið til baka og góðra stunda minnst. Þátttakendur úr ýmsum áttum deila minningum sínum og upplifun af óperum.

Þegar Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, útvarpskona, sá óperu í fyrsta sinn varð hún ekki samstundis hrifin, þvert á móti. „Ég sat þarna úti í sal og ég hugsaði: Ég ætla aldrei aftur í óperu, aldrei.“ En það breyttist og nú getur hún ekki hlustað á fallegar aríur án þess að fella tár. „Þegar ég er að gráta í Íslensku óperunni og hlusta á einhverju aríu þá hugsa ég: Vá ég er svo heppin.“

Hún á ljúfsára minningu af óperunni Toscu sem hún sá ásamt móður sinni, Sigrúnu Sigurðardóttur, þegar Íslenska óperan setti verkið upp árið 2017.

„Móðir mín var að deyja og hún lá á krabbameinsdeildinni þegar frumsýningin var og hún hafði mestar áhyggjur af því að hún kæmist ekki á frumsýningu.“ Læknarnir tóku það hins vegar ekki í mál að hún færi á sýninguna.

„Þannig að ég fór á frumsýninguna, grét náttúrulega ennþá meira af því mamma var ekki með mér. En það sem gerðist, hún einhvern veginn jafnaði hún sig – eins og hægt er að jafna sig á því þegar maður er að deyja – og komst á sýningu.“

Sigurlaug segir að móðir hennar hafi einfaldlega orðið að sjá Toscu. „Það gerðist eitthvað í lífi okkar beggja. Við sátum þarna saman, vissum að hún væri að deyja. Horfðum á Toscu, horfðum á afbrýðisemina, ástina, allar þessar tilfinningar og við bara eiginlega grétum báðar og vorum bara mjög hamingjusamar líka.“

 

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Óperan býður upp á allt – nema bílaeltingaleiki

Klassísk tónlist

Komst fyrst í tæri við óperulistina fyrir náð dyravarða

Klassísk tónlist

Varð samstundis ástfanginn af Carmen

Klassísk tónlist

„Þetta á eftir að verða drepleiðinlegt!“