Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umdeild lög afnumin í Frakklandi

30.11.2020 - 17:59
epa08849540 Protesters holds a banner reading 'Police Mutilates, Police Kills' during a demonstration against the newly passed controversial global security law, in Paris, France, 28 November 2020. The global security legislation passed by the French Parliament aims to ban the distribution of photos in which police officers and gendarmes can be identified in a way which is harmful to their image.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Franska þingið hefur dregið umdeild lög til baka, sem meðal annars banna myndatökur af lögreglumönnum að störfum. Þeim hefur verið mótmælt, ekki síst eftir að myndir birtust á samfélagsmiðlum af lögreglumönnum sem börðu og svívirtu mann vegna litarháttar hans.

Christophe Castaner, forseti franska þingsins og pólitískur samherji Emmanuels Macrons forseta, greindi frá því í dag að frumvarp að lögum til að auka öryggi lögreglunnar yrði samið upp á nýtt. Það sem samþykkt var fyrir helgi hefur mætt harðri andstöðu, meðal annars af mannréttindahópum og lögmönnum sem standa vörð um fjölmiðlafrelsi.

Tugþúsundir tóku þátt í mótmælagöngu gegn lögunum í París á laugardag, þar á meðal fjölskyldur og vinir fórnarlamba lögregluofbeldis í Frakklandi. Aðgerðasinnar lýstu yfir eindreginni andstöðu við lögin sem ætlað var að auka öryggi lögreglunnar. Að þeirra sögn hefði beitt vopn verið slegið úr höndum þeirra, snjallsímar sem notaðir eru til að mynda lögregluofbeldi, ekki hvað síst í hverfum fátækra innflytjenda.

Fjórir lögreglumenn misþyrmdu þeldökkum plötuupptökustjóra og svívirtu hann fyrr í þessum mánuði. Hann er þakklátur fyrir að myndskeið náðist af ofbeldismönnunum. Því var dreift á vefnum Loopsider þar sem yfir fjórtán milljónir hafa skoðað það. Tveir lögreglumenn eru enn í varðhaldi vegna málsins. Hinir hafa verið látnir lausir gegn tryggingu.