Mynd sem tekin var af eldfjallinu Ili Lewotolok í gær. Mynd: EPA-EFE - BNPB
Þúsundir hafa flúið heimkynni sín eftir að eldgos hófst á ný í fjallinu Ili Lewotolok, sem er á eynni Lembata í austanverðri Indónesíu. Um 4.400 íbúar í nágrenni fjallsins hafa forðað sér í öruggt skjól, en ekki er vitað til að neinn hafi sakað.
Yfirvöld hafa hvatt íbúa til að halda sig í að minnsta kosti fjögurra kílómetra fjarlægð frá fjallinu og vera með grímur vegna ösku í andrúmsloftinu. Þá hafa þau varað við hættu á hraunelfum úr fjallinu. Síðast hófst gos í fjallinu fyrir þremur árum.