„Þessi þrá að prófa alltaf eitthvað nýtt“

Mynd: Ágúst Ólafsson / Aðsend

„Þessi þrá að prófa alltaf eitthvað nýtt“

30.11.2020 - 14:15

Höfundar

„Maður er auðvitað svo lánsamur að vera úti í sveit, þannig að þó að maður komist ekki mikið af bæ, þá er maður alla vega svo frjáls í sveitinni. Maður fer bara í verkin sín, og það breytist ekki eins og á stærri vinnustöðunum annars staðar,“ segir Ásta Arnbjörg Pétursdóttir um starf bóndans á COVID-tímum. Hún og maðurinn hennar eru óhrædd við að prófa nýjar leiðir í búskapnum.

Á bænum Hranastöðum í Eyjafjarðarsveit er stórbýli með ríflega 100 mjólkandi kýr og stórt eggjabú. Þar hafa Ásta Arnbjörg Pétursdóttir og Arnar Árnason búið í tuttugu ár en láta búskapinn einan ekki nægja.

Ásta starfar einnig sem fjölskylduráðgjafi og bæði sinna þau alls kyns félagsstörfum. Arnar er nýhættur sem formaður Landssambands kúabænda eftir rúmlega fjögurra ára starf og Ásta er formaður Bjargráðasjóðs. Þau hafa bæði setið í sveitarstjórn og þannig mætti lengi telja. Rætt var við Ástu og Arnar í Sögum af landi á Rás 1. 

Stöðugleiki í mjólkinni og aukin neysla á eggjum

Þau hjónin eru sammála um að búreksturinn á Hranastöðum hafi gengið vel í faraldrinum og það sé ákveðið frelsi að vera í sveitinni. „Við höfum sloppið alveg. Við erum náttúrlega nokkur að vinna hér yfir daginn en þetta hefur sloppið mjög vel,“ segir Arnar.

Afkoman hefur verið með ágætum. Arnar segir að það sé stöðugleiki í mjólkurframleiðslu á Íslandi og því sé ekki yfir neinu að kvarta þar. „Í eggjabúskapnum er það þannig að neysla á eggjum hefur nú verið að aukast bara heilt yfir. Menn eru á ketó og öllum þessum kúrum,“ segir hann. „Núna í kóvídinu sá maður á sölutölum að fólk fór heim og var að baka og var meira heima hjá sér, það var greinilegt.“

Eggjabúskapurinn eykur fjölbreytni og líf á búinu

Árið 2018 ákváðu Ásta og Arnar að breyta til og byrja að framleiða egg til viðbótar við mjólkurframleiðsluna. Þau játa að vissulega hafi verið nóg að vera með stórt kúabú „En það er þessi þrá að prófa alltaf eitthvað nýtt. Og hér viljum við vera og þá þarf maður að skapa sér eitthvað nýtt hér. Og þetta er búið að vera alveg svakalega skemmtilegt og þetta eykur fjölbreytnina við vinnuna svo mikið. En á sama tíma auðvitað höfum við fólk í vinnu, það er líka bara skemmtilegt. Þá verður þetta svona meira líf á búinu,“ segir Ásta. 

Hún segir að þetta sé á margan hátt ólíkur búskapur. „Maður selur mjólkina bara við mjólkurhúsdyrnar en þarf að koma eggjunum alveg inn í búð. Þetta er svona öðruvísi umhverfi. En í sjálfu sér, að hugsa um skepnur er alltaf sama hugsunin. Að hugsa vel um dýrin sín. Og hænurnar eru að sumu leyti bara eins og kýrnar, misjafnar og dyntóttar og bráðskemmtilegar ef maður gefur sér tíma til að kynnast þeim,“ segir Ásta. 

Ágúst Ólafsson ræddi við Ástu Arnbjörgu Pétursdóttur og Arnar Árnason í Sögum af landi á Rás 1. Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Þar má heyra þau hjónin segja frá félagsstörfum sínum. Arnar segir nánar frá störfum sínum sem formaður Landssambands kúabænda og Ásta ræðir störf sín sem formaður Bjargráðasjóðs auk þess sem hún segir frá starfi sínu sem fjölskylduráðgjafi. 

Tengdar fréttir

Neytendamál

Búa til brauð úr bjórhrati

Austurland

Kúabændur stefna á kolefnishlutleysi innan 20 ára

Stjórnmál

Herdís nýr formaður Landssambands kúabænda

Landbúnaðarmál

Arnar hættir sem formaður Landssambands kúabænda