Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stjórnmálin úr sambandi

30.11.2020 - 20:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kórónuveirufaraldurinn hefur tekið stjórnmálin úr sambandi því öll orka fer í mál sem tengjast faraldrinum. Það gæti verið ástæðan fyrir því að aðeins fjórir þingmenn hafa enn sem komið er sagst ætla að hætta fyrir næstu kosningar. Þetta segir prófessor í stjórnmálafræði.

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands segir að ástæðan geti verið að kórónuveirufaraldurinn hafi ýtt flestum öðrum þingmálum til hliðar. Meirihluti sitjandi þingmanna kom inn á þing 2016 og 2017 og segir Ólafur því eðlilegt að flestir þeirra telji sig geta setið örlítið lengur. Margir þingmenn séu hugsanlega þeirra skoðunar að vegna faraldursins hafi þeim lítið áorkast í að koma sínum málum á framfæri og vilji því sitja lengur, komast inn á nýtt kjörtímabil til að geta haldið áfram með þau.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis og þingmaður Vinstri grænna hyggst ekki bjóða sig fram aftur eftir 38 ár á þingi. Samflokksmaður hans, Ari Trausti Guðmundsson mun ekki sækjast eftir áframhaldandi þingsetu. Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem sagt hafa sig úr þingflokki VG, hafa ekki gefið upp hvort þau ætli að ganga til liðs við aðra þingflokka eða bjóða sig fram aftur. Helgi Hrafn Gunnarsson og Smári McCarthy, Pírötum, ætla líka að hætta á þingi.

Hart verður barist um þingsæti

Þótt við blasi lítil endurnýjun er ljóst að barist verður um sæti á lista, flokkarnir halda ýmist prófkjör eða stilla upp og kynjasjónarmið ráða víða för. Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi sækist eftir því sæti á ný og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG, sækist eftir oddvitasæti í Norðausturkjördæmi sem Steingrímur hefur vermt. Þær fá báðar mótframboð.

Viðbúið er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vilji tryggja sér oddvitasæti í Reykjavík. Alls er óráðið hvar Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og varaformaður VG, sem situr utan þings, ætlar fram. Þá hefur Benedikt Jóhannesson, stofnandi og þingmaður Viðreisnar, lýst yfir áhuga á að snúa aftur á Alþingi. Nýr varaformaður flokksins, Daði Már Kristófersson, vill einnig á þing. Síðar er ótalið hvaða hrókeringar verða, hvort þingmenn færa sig milli og hverjir taka til dæmis við oddvitasætum Rósu Bjarkar og Ara Trausta. Fréttastofa telur að margt bendi til þess að þeir sem nú sitja á Alþingi ætli að sækjast eftir endurkjöri á næsta ári.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV