Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Högg kórónuveirunnar gæti orðið þyngra en bankahrunið

30.11.2020 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Landsframleiðsla dróst saman um 10,4 prósent á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýjum tölum Hagstofunnar. Í Evrópu var samdrátturinn hvergi meiri en á Íslandi á tímabilinu. Skýringin er algjört hrun í ferðaþjónustu. Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík segir líkur á því að höggið vegna kórónuveirufaraldursins geti orðið þyngra en í bankahruninu.

Katrín segir að þennan mikla samdrátt megi fyrst og fremst skýra með hruni í ferðaþjónustu. „Í raun hvarf ferðaþjónustan á fyrsta ársfjórðungi og hefur ekki náð sér á strik síðan. “ Tölur dagsins eru þó ekki alfarið slæmar því það er meiri landsframleiðsla á þriðja ársfjórðungi en öðrum ársfjórðungi. „Þetta sem við sáum í sumar, aukna ferðaþjónustu innanlands, skilar sér aðeins, ekki mjög sterkt en þó aðeins.“

Hún segir skýringuna á því að samdrátturinn sé meiri hér en annars staðar í Evrópu að ferðaþjónustan er stór hluti af íslenskum efnahag, eða átta og hálft prósent, sem er meira en í öðrum Evrópulöndum nema kannski Portúgal og Grikklandi. Tölurnar séu því í takt við það sem búist hafði verið við. 

Í Bretlandi varð 9,4 prósenta samdráttur í landsframleiðslu og þar hefur fjármálaráðherra landsins talað um verstu kreppu í þrjú hundruð ár. Þá áttu Bretar í mjög dýru stríði við Frakka auk þess sem miklir kuldar gerðu landsmönnum lífið leitt. Talið er að landsframleiðslan hafi þá dregist saman um 15 prósent. 

Katrín segir að ekki séu til hagtölur svo langt aftur í tímann hér á landi. Nærtækast sé því að horfa til bankahrunsins árið 2008. „Þá var samdrátturinn tíu prósent yfir tveggja ára skeið. Þetta er eiginlega harðara högg en svo verðum við að sjá hvort þetta verði samtals stærra en hrunið, það eru líkur á því en við verðum að bíða og sjá hvernig þetta þróast.“

Ólíkt bankahruninu er lausnin við kórónuveirufaraldrinum nokkuð einföld, ef svo mætti segja eða bóluefni. Katrín segir bóluefnið algjöran lykil þótt það ríki óvissa hver framvindan verður þegar það kemur á markað. „Hvenær það kemur og hvenær við förum aftur stað.  Og líka hvernig aðrir bregðast við. Þótt það sé búið að bólusetja þá er kannski ekki víst að fólk sé tilbúið að ferðast strax.“  En svo geti verið að fólk sé mjög ferðaþurfi og komi um leið og það geti. „En þetta eru mjög óvissar stærðir.“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV