Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Helmingur aðstoðarmanna ráðherranna eru lögfræðingar

30.11.2020 - 16:25
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hersir Aron Ólafsson hefur verið ráðinn nýr aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Hersir Aron er lögfræðingur og tekur við af Svanhildi Hólm Valsdóttur, sem verður framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs frá og með morgundeginum. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa nú 22 aðstoðarmenn á sínum snærum, þar af eru 11 með lögfræðimenntun.

Aðstoðarmönnum ráðherra hefur fjölgað undanfarin ár, bæði samhliða fjölgun ráðherraembætta en einnig hefur lögum verið breytt svo hverjum ráðherra er nú heimilt að ráða sér allt að tvo aðstoðarmenn. Þá er einnig heimild fyrir því í lögum að ráða þrjá aðstoðarmenn aukalega til ríkisstjórnarinnar sjálfrar. Þannig er heimild til að ráða 25 manns til að aðstoða ríkisstjórnina og ráðherra hennar miðað við núverandi ráðherraskipan. Aðstoðarmennirnir eru í dag 24, þar af eru tveir skilgreindir sem aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar. 11 aðstoðarmenn ráðherra af 22 eru lögfræðingar.  

Lögfræðingar vinsælir hjá Sjálfstæðisflokknum

Þeir Páll Ásgeir Guðmundsson og hinn nýráðni Hersir Aron Ólafsson eru aðstoðarmenn Bjarna Benendiktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra. Hersir hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur, fréttamaður og blaðamaður. Hildur Sverrisdóttir og Ólafur Teitur Guðnason eru aðstoðarmenn Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hildur er varaþingmaður og lögfræðingur. Gunnar Atli Gunnarsson og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir aðstoða Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Gunnar er lögfræðimenntaður. Eydís Arna Líndal og Hreinn Loftsson eru bæði lögfræðingar og aðstoðarmenn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra. Sömu sögu er að segja um aðstoðarmenn Guðlaugs Þórs Þórðaronar utanríkisráðherra, þau Borgar Þór Einarsson og Diljá Mist Einarsdóttur. Sjö af tíu aðstoðarmönnum ráðherra Sjálfstæðisflokksins eru lögfræðingar. 

Bara einn hjá VG með lögfræðimenntun

Bergþóra Benediktsdóttir og Lísa Kristjánsdóttir aðstoða Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann Vinstri grænna. Orri Páll Jóhannsson og Sigríður Halldórsdóttir eru aðstoðarmenn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, varaformanns VG og umhverfis- og auðlindaráðherra. Birgir Jakobsson og Iðunn Garðarsdóttir eru Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra VG, til aðstoðar. Iðunn er eini aðstoðarmaður ráðherra VG sem er með lögfræðimenntun. 

Skipt til helminga hjá Framsókn

Ingveldur Sæmundsdóttir og Sigtryggur Magnason eru aðstoðarmenn Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins. Þau Hrannar Pétursson og Milla Ósk Magnúsdóttir aðstoða Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformann flokksins. Milla Ósk er lögfræðingur, eins og báðir aðstoðarmenn Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, þau Arnar Þór Sævarsson og Sóley Ragnarsdóttir. 

Hagfræðingur og sagnfræðingur

Henný Hinz, fyrrverandi aðalhagfræðingur ASÍ, er tiltölulega ný viðbót í hópinn og er hún aðstoðarmaður ríkisstjórnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftlagsmála. Lára Björg Björnsdóttir er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum og er hún sagnfræðimenntuð. 

Í lögum um Stjórnarráð Íslands segir að það þurfi ekki að auglýsa störf aðstoðarmanna, þar sem lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins eiga ekki við um ráðningu þeirra. Aðstoðarmaður ráðherra gegnir störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur.

Fréttin hefur verið uppfærð.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV