Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ástralar krefjast afsökunarbeiðni

30.11.2020 - 11:57
Erlent · Afríka · Ástralía · Kína · Eyjaálfa
epa08824896 Australian Prime Minister Scott Morrison during a joint press conference with Japanese counterpart Yoshihide Suga (unseen) at Suga?s official residence in Tokyo, Japan, 17 November 2020.  EPA-EFE/Kiyoshi Ota / POOL
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu. Mynd: EPA-EFE - POOL
Deilur Ástrala og Kínverja aukast enn og hafa stjórnvöld í Canberra krafist afsökunarbeiðni frá ráðamönnum í Peking vegna færslu á Twitter sem þau segja svívirðilega og ógeðfellda.

Færslan er komin frá háttsettum embættismanni í kínverska utanríkisráðuneytinu og vísar til ásakana um meinta stríðsglæpi ástralskra hermanna í Afganistan. 

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, krefst formlegrar afsökunarbeiðni frá Kínverjum og einnig að Twitter fjarlægi umrædda færslu sem sýni á ástralskan hermann beina hnífi að hálsi afgansks barns. Morrison segir að þrátt fyrir deilur ríkjanna sé ekkert sem réttlætti svona framkomu. 

Aukin harka hefur færst í deilur Ástrala og Kínverja að undanförnu sem einkum virðist stafa af viðspyrnu stjórnvalda í Canberra við áhrifum Kínverja í Eyjaálfu og gagnrýni þeirra á viðbrögð stjórnvalda í Peking við kórónuveirufaraldrinum.

Kínverjar hafa brugðist við með refsitollum og öðrum efnahagslegum aðgerðum og nú beina þeir athyglinni að nýrri skýrslu um meinta glæpi ástralskra hermanna í Afganistan og morð á föngum og almennum borgurum. 

Morrison sagði í morgun að þetta framferði Kínverja væri ekki til að bæta samskiptin, en Hua Chunying, talskona kínverska utanríkisráðuneytisins, svaraði fullum hálsi. 

Hún sagði að Ástralar ættu að biðja afgönsku þjóðina afsökunar og sækja til saka ástralska hermenn sem sekir væru um glæpi gegn almennum borgurum í Afganistan.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV