
923 milljóna kröfu vísað frá héraðsdómi
Málið var þingfest í apríl og fór málflutningur fram í byrjun nóvember. Málið á sér langa sögu og hefur málinu nú í fimmgang verið vísað frá dómi á öllum dómstigum. Árið 2015 var gerð dómsátt á milli hinna stefndu og Samkeppniseftirlitsins þess efnis að fyrirtækin fimm greiddu samtals 1.620 milljónir króna í sekt vegna samkeppnishamlana á greiðslukortamarkaði. Fyrirtækin brutu gegn samkeppnislögum og EES-samningnum.
Upphaf málsins má rekja til þess að Kortaþjónustan kvartaði til Samkeppniseftirlitsins undan bönkunum, sem útgefendum kortanna, og greiðslumiðlunarfyrirtækjunum, sem færsluhirðum, vegna samkeppnishamlana á markaði. Þær samkeppnishamlanir fælust annars vegar í veitingu vildarpunkta og hins vegar í gjaldtöku. Auk þess að greiða sekt samþykktu fyrirtækin að breyta skipulagi og framkvæmd viðskipta á greiðslukortamarkaði. Breytingarnar fólu í sér hámarksgjald á þóknunum sem renna til bankanna, svonefnds milligjalds, vegna þjónustu sem þeir veita verslunum og öðrum söluaðilum. Í kjölfar rannsóknar Samkeppniseftirlitsins var gerð áðurnefnd dómssátt.
Kortaþjónustan höfðaði í kjölfarið mál og krafðist skaðabóta vegna samráðsins, einkum vegna ákvörðunar þeirra um milligjöldin, þ.e. greiðslu færsluhirða til kortaútgefenda. Í matsbeiðni var óskað eftir því að metið yrði umfang missis hagnaðar stefnanda og annað tjón sem leitt hafi af þeirri háttsemi stefndu sem lýst er í andmælaskjali Samkepppniseftirlitsins frá árinu 2013, en síðar var ákveðið að efni matsgerðar skyldi takmarkast við mat á tjóni vegna ákvörðunar milligjalda á debetkortamarkaði. Hæstiréttur staðfesti frávísun héraðsdóms árið 2017. Landsréttur hefur vísað málinu frá tvisvar, árin 2018 og 2019 á grundvelli vanreifunar.
Í dómnum segir:
„Að mati dómsins er enn uppi sami óskýrleiki hvað varðar afmörkun bótagrundvallar kröfu málsinsog lýst er í nefndum dómi Landsréttar. Er fyrst til þess að líta að stefna málsins er 39 blaðsíður að lengd og á köflum erfitt að henda reiður á því í hverju ætluð bótaskyld háttsemi felist. Í kröfugerðinni er háttsemi stefndu lýst þannig að hún hafi falist í „einhliða ákvörðun stefndu Borgunar hf. og Valitors hf., bæði sameiginlega með krossfærsluhirðingu og í sitthvoru lagi, á samræmdum milligjöldum fyrir debetkort“. Á hinn bóginn er víða í stefndu að finna mun víðtækari og óljósari lýsingu á háttsemi stefndu. Segir t.d. í almennri umfjöllun um sakarefnið að um sé að ræða „alvarleg og langvarandi brot sem voru til þess fallin að skaða Kortu“ og vísað m.a. til efnis andmælaskjals Samkeppniseftirlitsins til stuðnings þeirri staðhæfingu. Þá er í umfjöllun um ákvörðun milligjalda vísað til þess að hinir stefndu bankar hafi synjað Kortu um gerð tvíhliða samnings.“ segir í dómsorðinu.
Þá segir einnig að allir meginágallar á málatilbúnaði sem leiddu til fyrri frávísanna séu enn til staðar. Geri þurfi grein fyrir grundvelli bótakröfu og greina á milli þess tjóns sem bætt var fyrir í dómsátt og þess tjóns sem farið er fram á bætur fyrir í málinu nú.
„Af þessum sökum hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti nú, frekar en í fyrri málatilbúnaði sínum, hvert orsakasamhengið er á milli háttsemi stefndu sem hann kveður vera grundvöll bótakröfu sinnar og þess tjóns sem hann byggir á að sé afleiðing þeirrar háttsemi. Aðalkrafa stefnanda er því vanreifuð. Af sömu ástæðu er heldur ekki unntað taka varakröfur hans, um bætur að álitum, til skoðunar. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu í heild frá dómi enn á ný.
Stefnanda var gert að greiða hverju fyrirtæki 500.000 krónur í málskostnað.