Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Wizz air mátti meina farþegum að fljúga til Búdapest

29.11.2020 - 18:49
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Gerard van der Schaaf - Flickr
Samgöngustofa telur að Wizz air þurfi ekki að greiða tveimur farþegum sem var neitað að fljúga með vél flugfélagsins til Búdapest í Ungverjalandi um miðjan mars. Farþegarnir uppfylltu ekki þau skilyrði sem ungversk stjórnvöld höfðu sett fyrir komu til landsins.

Ungversk stjórnvöld lokuðu landamærum sínum á miðnætti þann 16. mars til að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.  Aðeins ungverskum ríkisborgurum var leyft að snúa aftur heim sem og þeim sem höfðu þar fasta búsetu vegna vinnu sinnar.

Farþegarnir áttu bókaða ferð með Wizz air til Búdapest daginn eftir að landamærunum var lokað en áhöfnin meinaði þeim að ganga um borð.  Í svari flugfélagsins kemur fram að ungversk yfirvöld myndu skoða öll ferðagögn á flugvellinum í Búdapest og þeir sem uppfylltu ekki skilyrðin yrði ekki hleypt inn í landið heldur gert að bíða á ákveðnu svæði þar til þeir kæmust aftur heim.

Samgöngustofa telur að farþegarnir hafi ekki sýnt fram á þeir mættu ferðast til Ungverjalands. Flugfélagið hafi því verið í fullum rétti að meina þeim að fljúga með félaginu til Búdapest. Var bótakröfu farþeganna því hafnað.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV