Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umboðsmaður þarf 5 milljónir - COVID-kvörtunum fjölgar

29.11.2020 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Forseti Alþingis hefur óskað eftir því við fjárlaganefnd að umboðsmaður Alþingis fái fimm milljónir á fjáraukalögum vegna setts umboðsmanns samhliða kjörnum umboðsmanni. Kjartan Bjarni Björgvinsson var settur umboðsmaður frá 1. nóvember til að Tryggvi Gunnarson, umboðsmaður Alþingis, gæti unnið að fræðsluefni fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar.

Í bréfi til fjárlaganefndar segir Steingrímur að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessu í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020. Ekki sé hægt að hliðra til í starfsemi umboðsmanns. Bæði eigi málaflokkurinn ekki neinn varasjóð og þá hafi kvörtunum fjölgað mikið, mest tengdum COVID-19 faraldrinum.

Embættið hefur þegar afgreitt tvær kvartanir vegna farsóttarinnar; önnur tengdist fyrirmælum stjórnvalda um að fara í sóttkví við komuna til landsins en sneri að hertri grímuskyldu í skóla.

Steingrímur segir í bréfi sínu að málið snúist um að kjörnum umboðsmanni verði gert kleift að ljúka fræðsluverkefni sem hann hóf að vinna að eigin frumkvæði fyrir sjö árum. „Í reynd hefur verið erfitt að sinna slíku verkefni samhliða föstum störfum umboðsmanns,“ skrifar Steingrímur og bendir á að umboðsmaður hafi tvívegis tekið stutt leyfi á liðnum árum til að vinna að verkefninu.