Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tvö hitamet í Sydney og viðbúnaður vegna gróðurelda

29.11.2020 - 06:27
epa08847379 People gather on the shore during heatwave conditions at Bondi Beach in Sydney, Australia, 28 November 2020.  EPA-EFE/JOEL CARRETT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Frá Bondi-ströndinni í Sydney Mynd: EPA-EFE - AAP
Hitamet voru slegin í Sydney í Ástralíu í nótt sem leið og aftur í dag. Nokkuð er um gróðurelda í útjaðri borgarinnar og hefur slökkvilið í nógu að snúast.

Lægsti hiti í borginni aðfaranótt sunnudags mældist 25,3 gráður. Er þetta hlýjasta nóvembernótt sem sögur fara af í borginni. Annað met var svo slegið þar syðra þegar hitamælir í borginni fór í 40,5 gráður klukkan 13.34 á sunnudag. Þetta er fyrsta sinn í 160 ára sögu veðurmælinga í Sydney, sem hiti fer yfir 40 stig í borginni tvo nóvemberdaga í röð.

Mikill viðbúnaður slökkviliðs í kjöraðstæðum fyrir gróðurelda

Slökkvilið hefur verið með mikinn viðbúnað alla helgina og hefur þegar sinnt nokkrum útköllum vegna smærri og stærri gróðurelda nálægt borginni. Viðbúnaðurinn er líka með mestua móti í dag, enda kjöraðstæður fyrir gróðurelda.

Stífir, hlýir vindar, allt að 25 metrar á sekúndu, leika um Nýja Suður Wales og við alþjóðaflugvöllinn utan við Sydney er enn hlýrra en í borginni sjálfri eða 42,6 gráður. Þá hefur nóvember verið með þeim þurrustu sem um getur á þessum slóðum, eftir nokkuð rigningasamt vor. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV