Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tugir handteknir í áköfum en fámennum mótmælum

29.11.2020 - 05:23
epa08839314 A woman holds a placard whilst protesting against Covid-19 vaccination, outside the headquarters of the Bill and Melinda Gates Foundation in London, Britain, 24 November 2020. Vaccine trials from a number of pharmaceutical companies are proving successful, giving hope at ending restrictions due to the ongoing coronavirus pandemic.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lundúnalögreglan handtók í gær yfir 60 manns sem létu til sín taka í mótmælum gegn sóttvarnaaðgerðum og -reglum yfirvalda í bresku höfuðborginni í gær. Lögreglan greindi frá þessu í tilkynningu snemma kvölds og sagði jafnframt að líkast til yrðu handtökurnar fleiri áður en yfir lyki. Fram kemur að fólkið hafi verið handtekið fyrir ýmsar sakir, meðal annars fyrir brot á nokkrum af sóttvarnareglunum sem það var að mótmæla, þar á meðal um hópamyndun.

Það voru ekki síst lokanir hinna ýmsu verslana, vinnu-, veitinga- og skemmtistaða og þjónustu af ýmsu tagi sem mótmælendur börðust gegn. Reglurnar um þær lokanir gilda fram á miðvikudaginn 2. desember, en ekki hefur verið tilkynnt um framhaldð.

Andstæðingar bólusetninga slógust í hóp mótmælenda þegar á daginn leið. Mótmælendur héldu á lofti skiltum með slagorðinu „Verjið frelsið, verjið mannkynið." Þeir voru ákafir en ekki að sama skapi margir að sögn lögreglu, sem áætlar að þeir hafi verið á bilinu 3 - 400 talsins.