Sigur Úlfanna í skugga alvarlegra höfuðmeiðsla

epa08851899 David Luiz of Arsenal receives medical treatment during the English Premier League soccer match between Arsenal FC and Wolverhampton Wanderers in London, Britain, 29 November 2020.  EPA-EFE/Catherine Ivill / POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

Sigur Úlfanna í skugga alvarlegra höfuðmeiðsla

29.11.2020 - 21:38
Úlfarnir unnu góðan útisigur á Arsenal í lokaleik kvöldsins. Sigur þeirra fellur hinsvegar í skuggan af alvarlegum höfuðmeiðslum sem Raul Jimenez varð fyrir í upphafi leiks.

Lokaleikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni fór fram á Emirates vellinum í Lundúnum í dag þegar að Arsenal tók á móti liði Wolves. Heimamenn þurftu nauðsynlega á sigri að halda en liðið hefur einungis tvisvar áður verið með 13 stig eftir 10 leiki í Úrvalsdeildinni, tímabilin 1992-93 og 1994-95. Rúnar Alex Rúnarsson var á varamannabekk Arsenal í dag. 

Strax á 5. mínútu urðu bæði lið fyrir áfalli þegar að David Luiz og Raul Jimenez lentu í samstuði og fengu þeir báðir þung höfuðhögg. Jimenez gat ekki haldið leik áfram og var fluttur á börum af velli. David Luiz fékk sárabindi um höfuðið en gat haldið áfram. Ákvörðunin um að láta hann spila áfram eftir svona höfuðhögg hefur þó þegar verið gagnrýnd af mörgum. Leikmenn virtust margir hverjir vera í hálfgerðu áfalli enda litu meiðsli Jimenez ekki vel út og var hann fluttur beina leið á spítala. Mikil töf varð á leiknum í kjölfar atviksins. Eftir leik kom staðfesting frá Úlfunum að Jimenez væri með meðvitund og svaraði meðferð á spítala. 

Um tíu mínútum eftir að leikurinn fór aftur af stað nýtti Adama Traore hraða sinn til að fara framhjá Kieran Tierney og átti góða fyrirgjöf á Leander Dendoncker sem setti boltann í þverslánna, Pedro Neto var vel vakandi í teignum og hirti frákastið og setti boltann í netið og kom því gestunum yfir. Arsenal voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og þremur mínútum síðar jafnaði Gabriel leikinn með góðum skalla eftir sendingu frá Willian. 

Áður en flautað var til hálfleiks náðu Úlfarnir aftur forystunni. Pedro Neto átti þá ágætis skot eftir laglegan undirbúning frá Traore en Bernd Leno varði vel í marki Arsenal. Boltinn varst hins vegar til Daniel Podence sem skoraði og kom Úlfunum aftur yfir og þannig var staðan í hálfleik. 

Í hálfleik varð ljóst að David Luiz gat ekki haldið leik áfram en talsvert hafði þá blætt úr sári sem hann hlaut í samstuðinu við Jimenez. Arsenal reyndi allt sem þeir gátu til að jafna leikinn í seinni hálfleik en sköpuðu sér fá góð færi. Besta færi þeirra kom á 83. mínútu þegar Pierre-Emerick Aubameyang átti skalla rétt framhjá markinu. 

Með sigrinum fer Wolves í 6. sæti deildarinnar en Arsenal sogast nær botninum og er í 14. sæti.