Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir eineltisáætlanir í stöðugri endurskoðun

29.11.2020 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Garðaskóli
Bæjarstjóri Garðabæjar segir að bærinn hafi lagt mikið á sig til að vinna gegn einelti í skólum og að allar áætlarnir séu í stöðugri endurskoðun. Tvö alvarleg eineltismál hafa komið upp í bænum á síðustu misserum.

 

Fagráð eineltismála og Mennta- og menningarmálaráðuneytið gera alvarlegar athugasemdir við hvernig Garðaskóli hefur brugðist við eineltismáli sem þar kom upp í fyrra. Barnið hefur verið í heimakennslu vegna þessa og tekur engan þátt í félagsstarfi. Fram kom í fréttum sjónvarps í gær að foreldrar barnsins séu ráðþrota vegna skorts á svörum frá skólanum og bæjaryfirvöldum.

Þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem greint er frá alvarlegu eineltismáli í Garðabæ. Í síðasta mánuði fjölluðu fjölmiðlar um einelti í garð ungs drengs í Sjálandsskóla en hann upplifði mikla vanlíðan og þurfti að skipta um skóla og íþróttafélag.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en segir að bæjaryfirvöld hafi lagt mikið á sig til að vinna gegn einelti í skólum.

„Ég tel svo vera að okkar fólk sé að vinna eftir bestu getu. Okkar eineltisáætlanir eru stöðugt í endurskoðun og við höfum fengið sérfræðinga bæði til að fara yfir þær og búa þær til með okkur. Til dæmis Vanda Sigurðardóttir sem er einn helsti sérfræðingur landsins í eineltismálum hefur liðsinnt okkur í þróun á okkar eineltisáætlunum þannig að ég tel okkar starfsfólk og okkar fólk vera að vinna eins vel og það mögulega getur,“ segir Gunnar.

Hann segir að þjónustukannanir meðal nemenda og foreldra sýni að almenn ánægja ríki með skólastarfið í bænum.

„Það verður að horfa til þess að hér er 17 þúsund manna samfélag og það eru mýmörg mál alltaf í gangi sem leysast og rata ekki í fjölmiðla þannig er það, vil ég fullyrða, í öllum sveitarfélögum. Og okkar staða er hins vegar þessi að við getum aldrei tjáð okkur um þessi mál. Við megum það ekki og getum það ekki. En sérstaklega í því máli sem þið voruð að fjalla um þá liggur fyrir greinargerð til ráðuneytisins en við getum því miður ekki tjáð okkur. Í svona málum eru alltaf margar hliðar og það er reynt að vinna með alla í því sambandi,“ segir Gunnar.
 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV