Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samfylkingarlistar í borginni verði tilbúnir í febrúar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samfylkingin í Reykjavík hyggst stilla upp á framboðslista með sænsku aðferðinni svokölluðu fyrir alþingiskosningarnar á næsta ári. Listarnir munu liggja fyrir 20. febrúar, en að öllu óbreyttu verða kosningarnar 25. september. Yfirleitt hefur verið efnt til prófkjörs hjá flokknum í borginni, nema fyrir síðustu alþingiskosningar þegar stillt var upp á lista.

Hörður J. Oddfríðarson, formaður stjórnar Fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir að vonast sé til þess að með þessari aðferð verði listinn fjölbreyttari en annars hefði orðið. 

„Við höfum verið að velta fyrir okkur hvernig þessu verði best fyrir komið og skoðað ýmsar leiðir. Við viljum vanda til verka og hleypa sem flestum að borðinu,“ segir Hörður. „Þessi leið býður upp á það.“

Í sænsku leiðinni felst að kallað verður eftir tilnefningum á framboðslistana í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Haft verður samband við þá sem tilnefndir verða og fengin staðfesting á vilja þeirra til þátttöku. Þá verður útbúinn listi með nöfnum þeirra og hann sendur rafrænt til flokksfólks í Reykjavík. Hver og einn getur merkt við allt að tíu á listanum. Uppstillingarnefnd fer yfir niðurstöðurnar í samráði við þrjá efstu frambjóðendurna á hvorum framboðslistanum fyrir sig og í samræmi við reglur Samfylkingarinnar um fléttulista.

Framboðslistarnir verða síðan birtir sjö mánuðum fyrir áætlaðan kosningadag. Spurður hvers vegna þeir eigi að liggja fyrir svo snemma segir Hörður að aðstæður séu óvenjulegar vegna kórónuveirufaraldursins. „Það er allt undir í þessum kosningum og eðlilegt að búið sé að setja saman framboðslista snemma, þannig að frambjóðendur hafi tækifæri til að undirbúa sig fylgjast með lokum þingsins næsta vor,“ segir Hörður.