Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólíklegt að fólk komist í hefðbundna messu á aðfangadag

29.11.2020 - 19:53
Innlent · COVID-19 · Jól
Mynd: Kristinn Magnússon / Ljósmynd
Helgihald verður með óvenjulegu sniði í ár vegna farsóttarinnar. Biskup Íslands telur ólíklegt að fólk komist í messu á aðfangadag.

Það var tómlegt um að litast í kirkjum landsins á fyrsta sunnudegi í aðventu. Vegna samkomu- og nálægðartakmarkana voru engar messur á dagskrá og líklega verður það svo næstu vikurnar.

„Ég get ekki séð miðað við núverandi aðstæður í samfélaginu og heiminum öllum að það verði breyting á miðað við það sem er í dag, það er að segja að við getum messað í kirkjunum,“ segir Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Leitað hefur verið leiða til að bjóða upp á guðsþjónustu sem brýtur ekki í bága við sóttvarnareglur. „Í staðinn fyrir að fólkið komi til kirkjunnar þá reynir kirkjan að koma til fólksins,“ segir Agnes.

„Við reynum að leysa þetta með streymi, senda út til fólksins, sem er öðruvísi og annað en við erum vön en þetta er ljósanna hátíð og við reynum að sjá ljósið í þessu ferli öllu saman,“ segir Hjörtur Magni Jóhannsson, sóknarprestur í Fríkurkjunni í Reykjavík.

Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, tekur í sama streng. „Við höfum búið til stuttar helgistundir og sett á netið og dreift og ég hef verið að framleiða fjarfermingarfræðsluefni,“ segir Davíð.

Þá íhuga nokkrar sóknir að vera með helgihald undir berum himni á aðventunni, ef veður leyfir.

„Ég geri ráð fyrir að á aðfangadag reynum við að vera með eitthvað fyrir utan kirkjuna, kórsöng eða stutta hugvekju,“ segir Davíð.

Þá deyja kirkjugestir ekki ráðalausir heldur. Vegna faraldursins var guðsþjónustan í Hallgrímskirkju í dag tekin upp fyrirfram og henni útvarpað. Kirkjan var þó opin og Hjördís Jónsdóttir, sem sækir messur reglulega, mætti með símann sinn og heyrnartól til að hlýða á þjónustuna.

„Ég bara lokaði augunum og sá alla fyrir mér. Sá hann Björn spila og vini mína sitja við hliðina á mér. Það eru oftast nær svo margir hérna í messu en við vorum bara tvær hérna núna,“ segir Hjördís.