Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Löggur reyna að hrekja kórónuveiruna á brott með söng

29.11.2020 - 22:09
löggur
 Mynd: Københavns Politi - Skjáskot
„Við munum aldrei gleyma marsmánuði 2020 því að síðan þá höfum við verið meira eða minna heima við. Hingað kom kórónuveiran og breiddist hratt út.“ Svona hefst söngur sjö einkennisklæddra liðsmanna Kaupmannahafnarlögreglunnar þar sem þeir freista þess að hrekja kórónuveiruna á brott með söng.

Þar syngja lögregluþjónarnir „Åh, corona du skal gå din vej. Vi er trætte af af slå med dig. Så giv os vor hverdag tilbage“ við lagið Ó, María um þau áhrif sem kórónuveirufaraldurinn hefur haft á líf þeirra og annarra Dana, meðal annars á ferðalög. Nú megi þeir ekki fara eitt né neitt, veisluhöld séu út úr myndinni og fátt sé við að vera annað en að spritta hendur og halda fjarlægð. 

Myndband með söngnum var birt á samfélagsmiðlasíðum Kaupmannahafnarlögreglunnar og var tekið upp við Politigården, sem eru höfuðstöðvar lögreglunnar í Kaupmannahöfn.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir