Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Glímir við eftirköst og vill ekki sjá fjórðu bylgju

29.11.2020 - 20:08
Maður á sextugsaldri sem glímir við eftirköst COVID-19 á Reykjalundi segir að enginn vilji lenda í því að smitast. Hann, ásamt tuttugu öðrum, er alla virka daga í líkamlegri og andlegri endurhæfingu. Um sextíu til viðbótar úr fyrstu bylgju bíða eftir að komast að í endurhæfingu á Reykjalundi. Læknir þar býst jafnvel við fleirum úr þeirri þriðju.

Flestir þreyttir eftir þrekprófið

Til að byrja með fer fólk í þrekpróf til að mæla úthald og hámarks-áreynslugetu og hvort fólk glímir við vandamál sem tengist lungum eða æðakerfi. „Flestir eða talsverður hluti er með eðlilega áreynslugetu. Það sem virðist einkenna þá er hvað þeir eru áberandi þreyttir kannski daginn eftir að þeir fóru í prófið,“ segir Eyþór Björnsson, lungnalæknir á Reykjalundi. 

Um sextíu manns hafa þreytt prófið og bíða eftir að komast að á Reykjalundi, allt fólk sem smitaðist í fyrstu bylgju. Eyþór býst jafnframt við hópi sem þarfnast aðstoðar sem smitaðist í þriðju bylgju. „Það er lang líklegast að það verði annar eins hópur og jafnvel stærri,“ segir Eyþór.

Þurfa fleiri en þið bjuggust við hjálp? „Við vissum ekki upphaflega hvort það væri neinn sem myndi fá þessi einkenni og vera svona lengi veikur. Það kom okkur talsvert á óvart,“ segir hann.

Ekki bara líkamleg veikindi

Nú eru rúmlega 20 manns í meðferð, þar á meðal Sigurbergur Pálsson, 58 ára trésmiður úr Borgarnesi, sem smitaðist af veirunni skæðu í lok mars. Óvissan fannst honum verst. „Ég var á spítala í 17 daga. Veikur og upplifunin var skelfileg hreinlega, ég vissi ekkert hvort maður færi láréttur eða lóðréttur út. Af því þetta er ný veira og svona. Þetta var ekki bara líkamlegt heldur fór þetta líka svolítið á kollinn á manni,“ segir Sigurbergur Pálsson.

Gott að byggja upp styrk í sundi

Hvernig er svona týpískur dagur hérna á Reyjalundi hjá þér? „Maður er í vinnu frá átta til fjögur, bæði andlegum þáttum og líkamlegum. Það er mjög gott eins og í sundinu að byggja upp líkamann. Okkur finnst sundið bæði mýkja okkur og styrkja. Svo hefur enginn komist í sund lengi, svo við erum að nýta tækifærið,“ segir Sigurbergur.

Mikilvægt að missa ekki faraldurinn í fjórðu bylgju

Þá eru göngutúrar, sjúkraþjálfun og fyrirlestrar um næringarfræði og heilsulæsi hluti af meðferðinni, sem er einstaklingsbundin enda einkennin mismunandi. Sigurbergur glímir við orkuleysi og stoðkerfisverki. „Ég finn töluverðan mun á mér, liðleika og þolið er að byggjast upp. Ég held að það sé gott að fá aðhaldið, vera með öðrum á svipuðu reiki.“

Tvö eru útskrifuð en það er ekki komin reynsla á langtímaáhrif endurhæfingarinnar, það tekur nokkar vikur. „Ég er allur að koma til og ætla mér náttúrlega bara að fara að vinna 100% vinnu. Ég held við ættum bara að anda tvisvar, þrisvar og ekki missa þetta í fjórðu bylgju. Ég veit hvernig það er að lenda í þessu. Þó jólin verði öðruvísi hjá okkur þá kemur þetta,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sundleikfimi er hluti af COVID-endurhæfingunni.