„Ef hendin var kreppt vissi ég að sundið var vonlaust“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ef hendin var kreppt vissi ég að sundið var vonlaust“

29.11.2020 - 08:30
Þriðji þáttur Ólympíukvölds fatlaðra er á dagskrá RÚV í kvöld. Farið verður yfir Ólympíumót fatlaðra frá upphafi til ársins 2016. Rifjuð verða upp ógleymanleg augnablik með keppendum, þjálfurum og íþróttafréttamönnum sem voru á staðnum.

Í þætti kvöldsins verður fjallað um Ólympíumót fatlaðra í Atlanta 1996 og í Sydney 2000. Í þætti kvöldsins er fyrrum sundkonan Kristín Rós Hákonardóttir meðal gesta en hún var ein mesta afrekskona íslenskra íþrótta, en hún keppti á fimm heimsmeistaramótum og fimm Ólympíumótum og setti samtals sextíu heimsmet og níu Ólympíumótsmet.

„Ekki bara sundlaugin heldur hausinn líka“

Á Ólympíuleikunum í Atlanta nældi Kristín sér í þrenn gullverðlaun og tvenn bronsverðlaun, og var valin íþróttakona leikanna.

Þjálfarinn hennar, nafna hennar Kristín Guðmundsdóttir, er einnig gestur í þættinum og segir velgengni Kristínar Rósar ekki hafa komið henni á óvart. „Það skipti mjög miklu máli að ná sundmanninum rétt stemmdum. Eins og með Kristínu Rós, hún er spastísk og þá gat ég oft séð áður en hún fór á pallinn hvort hún myndi bæta sig eða ekki. Ef að hendin var kreppt þá vissi ég að sundið var vonlaust, ef að hún var búin að ná hendinni niður þá vissi ég að það gengi vel,“ segir Kristín.

„Það var eitthvað sem við vorum búnar að æfa, að anda djúpt og ná hendinni niður. Þannig það var líka sálrænt fyrir hana, það er ekki bara sundlaugin heldur hausinn líka,“ segir Kristín.

Þetta er djúpt samband, milli þjálfara og keppenda?

„Já algerlega, Kristín náði alltaf að ná mér niður til að slaka á, þannig að þetta var bara frábært,“ segir Kristín Rós í þættinum.

Horfa má á brot úr þættinum í spilaranum hér að ofan. Þátturinn er á dagskrá RÚV klukkan 20:20 í kvöld.