Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Byggð á Fram-svæði myndi opna á „erfiðar tilfinningar“

29.11.2020 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg - RÚV
Íbúaráð Háaleitis og Bústaðahverfis, foreldrafélag Álftamýraskóla, forsvarsmenn leikskólans Álftaborgar og Íbúasamtök Háaleitis og Bústaða eru andsnúin því að byggja eigi á svæðinu þar sem íþróttafélagið Fram hefur haft aðstöðu. Fyrirhugað er að Fram flytji starfsemi sína úr Safamýrinni og að annað íþróttafélag, Víkingur, taki við eftir tvö ár og leggi undir íbúðabyggð.

Drög að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur voru kynnt fyrir íbúaráðin í Reykjavík og fleiri hópa um miðjan nóvember. Þar komu fram hugmyndir um að byggja íbúðir á íþróttasvæði Fram. 

Heitar tilfinningar

Á fundi íbúaráðs Háaleitis-og Bústaðahverfis í vikunni voru lögð fram bréf frá Íbúasamtökum Háaleitis og Bústaða, foreldrafélagi Álftamýraskóla, leikskólans Álftaborg auk umsagnar íbúaráðsins sjálfs um drögin. 

Umsögn íbúaráðsins varpar ljósi á þær miklu tilfinningar sem bærast í brjósti íbúanna. „Það var íbúum hverfisins, sérstaklega iðkendum og fjölskyldum þeirra, afar þungbært þegar ákveðið var að fjarlægja hverfisíþróttafélagið Fram í annað hverfi án þess að iðkendur og foreldrar þeirra væru spurðir,“ segir íbúaráðið.  Börnin hafi í framhaldinu raðað sér niður á fjögur íþróttafélög. 

Forsvarsmenn Víkings fá þó hrós fyrir undirbúning að komu sinni og segir íbúaráðið það upplifun íbúa að þarna sé nýtt upphaf.  En nú séu blikur á lofti. „Ef byggt verður á íþróttasvæði Fram, sem getur nýst sem íþróttasvæði Víkings eða sem útivistarsvæði fyrir íbúa, verður sú framkvæmd til þess að opna á erfiðar tilfinningar íbúa á tíma þegar stemningin er upp á við og fólk búið að sætta sig við komu Víkings og nýja tíma í hverfinu.“

Segja að það vanti sárlega grænt svæði í hverfið

Stjórn Íbúasamtaka Háaleitis og Bústaða segir hugmyndir borgarinnar um byggð á þessu svæði í engu samræmi við það sem fulltrúar hennar hafi áður sagt á íbúafundum þegar kynnt var hvað tæki við þegar Fram færi úr Safamýrinni. „Það er því krafa íbúasamtakanna að Reykjavíkurborg standi við sín fyrirheit og hald Fram-svæðinu óbreyttu svo það nýtist áfram undir íþrótta-og æskulýðsstarfsemi fyrir íbúana í þessu hverfi“

Leikskólastjóri og deildarstjóri leikskólans Álftaborgar segjast finna fyrir því að það vanti sárlega græn svæði í umhverfi barnanna. Ný byggð stórauki umferð í nágrenni skólans og gæta þurfi vel að heilsu barna með því að fylgjast náið með svifryksmengun sem fari langt yfir heilsuverndarmörk.

Foreldrafélag Álftamýraskóla lýsir yfir andstöðu við þessa fyrirætlan borgarinnar.  Svæðið liggi að lóð skólans og félagið vilji alls ekki að byggt verði á því svæði sem ekki verði notað undir íþróttastarfsemi Víkings.  „Vel skipulagt útivistarsvæði gæti orðið hjarta hverfisins þar sem íbúa gætu stundað fjölbreytta útivist og haldið viðburði.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV