Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áralangri baráttu við brotið og bogið kerfi loks lokið

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Fréttir
Rúmlega fimm ára baráttu Rúnu Guðmundsdóttur við kerfið lauk á föstudag þegar Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrrverandi sambýlismann hennar til þess að greiða henni skaðabætur vegna heimilisofbeldis. Hún segir baráttuna hafa verið erfiða en nauðsynlega, því kerfið sé brotið og bogið. 

Fyrrum sambýlismaður Rúnu réðst á hana á heimili þeirra í maí 2015. Hún kærði ofbeldið til lögreglu en vegna mistaka misfórst upptaka af skýrslutöku hennar og sakamálið var látið niður falla. Hún höfðaði í staðinn einkamál og krafðist bóta.

Fréttastofa fjallaði ítarlega um málið á sínum tíma og Rúna lýsti ofbeldinu sem hún varð fyrir og rakti upphaf rannsóknar og málsmeðferðarinnar í löngu viðtali árið 2015

Dómur féll Rúnu í vil á föstudaginn. Talið er sannað að maðurinn hafi lagt hendur á Rúnu, háttsemi hans hafi verið fólskuleg og staðið lengi yfir á heimili þeirra sem átti að vera griðastaður hennar. Málið hefur velkst um í kerfinu í fimm ár.

Hefur hlegið og grátið til skiptis

Rúnu segist vera létt að dómur sé loks fallinn. „Ég er í smá sjokki eftir þetta eftir allan þennan tíma. Búin að sitja og gráta og hlæja til skiptis. Loksins hlustaði einhver.“

Hún þorði ekki að vonast eftir niðurstöðu sér í vil. 

„Öll skref og allar snertingar við réttarkerfið hafa ekki fallið mér í vil og ég bjóst ekkert við að þetta síðasta, að það myndi ganga mér í hag. En ég er alveg afskaplega þakklát að réttarkerfið sé sammála að það er ekki í lagi að beita aðra ofbeldi.“

Fleiri konur í sömu sporum

Baráttu Rúnu er lokið í bili, en henni brá að heyra frá öðrum konum í sömu sporum að lítið hefur breyst. 

„Það var ein kona sem hringdi í mig í dag og mál hennar er að fara fyrir dóm á þriðjudag, fjórum árum síðar. Mér þykir rosalega leiðinlegt að heyra að lögreglan hefur ekki enn tekið upp faglegri vinnubrögð í tengslum við þennan málaflokk.“

- Finnst þér kerfið hafa brugðist þér? „Já klárlega. Ekki bara mér heldur bara samfélaginu öllu. Það þarf einhver bara að grípa einstaklinginn sem kemur úr ofbeldissambandi og fylgja honum eftir frá A til Ö. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að manneskja sem er í andlegu niðurbroti geti staðið upp og ýtt á málið, ýtt á málið og ýtt á málið.“ 

Fleiri, fleiri líf undir

Ofbeldið mótar enn líf Rúnu, og hún segir það hafa tekið mikið á að þurfa ítrekað að rifja það upp.  „Radíusinn minn er miklu minni. Ég er bara örugg í faðmi fjölskyldu minnar og vina og innan vinnunnar og svo þorir maður ekkert miklu meiru. Maður þorir ekki að stíga inn í eitthvað nýtt eða treysta einhverjum fyrir hjartanu eða sjálfum sér.“

„Af því að nógu erfitt er að bera sárin, hvað þá að þurfa að vera að flagga því sífellt að fá fólk til að laga hlutina sem eru bara augljóslega bognir og brotnir en ég er tilbúin að gera það því þetta er bara ofboðslega mikilvægt. Þetta eru fleiri, fleiri líf sem skipta bara miklu máli.“

Viðtalið við Rúnu má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.  

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Fréttir
Viðtalið við Rúnu í heild sinni.