
Vetrarfærð á landinu - von á lítilli „lægðarbólu“
Veðurstofan segir í stuttum pistli í morgun að í kvöld sé von á lítilli lægðarbólu upp að suðvesturhorni landsins. Henni fylgir hægt vaxandi suðaustanátt með slyddu og síðan rigningu sunnan til og heldur hlýnandi veðri.
Í nótt fer lægðin síðan norðaustur og skilar þar kaldri norðlægri átt með snjókomu. Á meðan birtir heldur til á Suðurlandi. Næsta vika hefst á nokkuð djúpri lægð, hlýju lofti og rigningu. Um miðja viku er von á norðanátt og talsverðu frosti.
Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að vetrarfærð er á landinu og víða allhvasst. Snjómokstur er í gangi eða að hefjast. Á Suðvesturlandi er snjóþekja eða hálka og einhver éljagangur. Sömu sögu er að segja af Vesturlandi. Á Vestfjörðum er þungfært og skafrenningur á Klettshálsi og ófært um Dynjandisheiði og Hálfdán sem og norður í Árneshrepp.
Af Norðurlandi er það helst að frétta að töluvert hvassviðri er á Siglufjarðarvegi og snjóþekja og skafrenningur á Öxnadalsheiði. Á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi er víða hálka og vetrarfærð og snjóþekja á vegum.