Sambland af ofboðslegum hæfileikum og miklum göllum

Mynd: EPA-EFE / EFE

Sambland af ofboðslegum hæfileikum og miklum göllum

28.11.2020 - 10:17
Helgi Hrafn Guðmundsson bjó lengi vel í Argentínu og þekkir því argentínska þjóðarsál nokkuð vel. Hann segir Maradona vera nánast alltumlykjandi í Argentínu og íbúar landsins hafi elskað hann líkt og um náin vin væri að ræða.

Í samtölum sínum við íbúa var umræðuefnið oft fótbolti og Maradona. Helgi Hrafn komst því í tæri við hver Maradona er í augum Argentínumanna. „Hann er örugglega frægasti Argentínumaður fyrr og síðar. Það er ekki bara íþróttaafrekið sjálft. Messi er líka frábær í fótbolta. Það er þessi ofboðslegi persónuleiki sem skiptir svo miklu máli. Með því að læra spænsku og heyra hann tala áttar maður sig betur á því. En ég held að það sjái nú allir, þó þeir skilji ekki spænsku, að þetta er rosalegur karakter,” segir Helgi Hrafn um Maradona. 

Fótboltahæfileikarnir og afrekin þar útskýra þó ekki ein og sér aðdáun þjóðarinnar á Maradona. Að sögn Helga Hrafns er íþróttaafrekið sjálft þó gríðarlegt enda var Maradona stórkostlegur í fótbolta frá unga aldri og svo mikill yfirburðarleikmaður að það var nánast ótrúlegt. En sögulega samhengið skiptir einnig miklu máli þegar kemur að aðdáun Argentínumanna á Maradona. „Hann er fæddur 1960 og árið 1976, þegar hann er 16 ára, tekur herforingjastjórn völdin í Argentínu og það var mjög leiðinlegur tími,” segir Helgi Hrafn. 

Argentína hélt HM árið 1978 og kom það í hlut herforingjastjórnarinnar að halda utan um mótið. Maradona var ekki valinn í HM hóp Argentínu en án hans sigurðu heimamenn þó keppnina  „Eftir á að hyggja var eins og sú keppni væri smá svindl og herforingjarnir hefðu „riggað” þessu,” segir Helgi Hrafn um mótið en sigur Argentínu þótti nokkuð umdeildur og allar götur síðan hafa háværar raddir verið á lofti um meint svindl og mútur sem tryggðu Argentínu sigurinn í mótinu. 

Herforingjastjórnin fór frá völdum árið 1983 og var þá efnahagur Argentínu í rúst og þjóðin í raun niðurlægð eftir ósigur í Falklandseyjastríðinu. Maradona leiddi svo Argentínumenn til sigurs á HM 1986 sem haldið var í Mexíkó. „Það var rosalegur sigur, svona þjóðeiningarafl. Hluti af því náttúrulega að vinna Englendinga, með þessum frægu mörkum frá Maradona. Það afrek út af fyrir sig mun alltaf gera hann að stórum karakter og hetju,” segir Helgi Hrafn um sigurinn.

Svo er það allt hitt við Maradona, það eru ekki einungis til hetjusögur af honum heldur er hann einnig skúrkurinn í mörgum sögum. „Þessi samblanda af því að vera svona ofboðslega hæfileikaríkur og svona ofboðslega gallaður bjó til manneskjulega mynd af honum. Argentínumenn þekkja hann mjög vel, skilja persónuleikann,” segir Helgi Hrafn.

Maradona var ávallt afar alþýðulegur. Hann fæddist í fátækrahverfi þar sem íbúar náðu almennt engum frama. Menntun var lítil og flestir í láglaunastörfum. Maradona braust út úr þeim vítahring og varð að þjóðhetju. Helgi segir ofboðslegan kraft hafa verið í honum og allt sem hann gerði var eins og listaverk. „Hann er bara eins og frændi þinn eða vinur þinn. Fólk er ekki gallalaust. Held að fólk hafi elskað hann eins og einhvern sem það þekkir mjög vel. Veit að hefur sína kosti og galla og það var kannski fegurðin í þessu. Gallarnir eru svo ofboðslega miklir, það gengur svo mikið á. Hann er hetjan 1986 í Mexíkó. Árið 1990 komast Argentínumenn nálægt því að endurtaka leikinn en tapa fyrir Þjóðverjunum í úrslitum. En svo árið 1994 er hann skúrkurinn, þá er hann sendur heim þegar hann fellur á lyfjaprófi. Öll þau ár fara einhvern veginn í vaskinn hjá honum. Þessi kókaínfíkn, það eru svo miklar andstæður þarna,” segir Helgi Hrafn um þennan magnaða knattspyrnumann. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Maradona lagður til hinstu hvílu

Íþróttir

Snillingur og sá besti sinnar kynslóðar

Fótbolti

Hönd Guðs eða hönd Maradona?

Þriggja daga þjóðarsorg í Argentínu