Lið Willums missti af titlinum með dramatískum hætti

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Lið Willums missti af titlinum með dramatískum hætti

28.11.2020 - 13:20
Mark í uppbótartíma kom í veg fyrir að Willum Þór Willumsson yrði meistari með liði sínu BATE í efstu deild í Hvíta-Rússlandi í dag.

Lokaumferðin í efstu deild í Hvíta-Rússlandi fór fram í dag. Fyrir leiki dagsins var lið BATE með pálmann í höndunum en liðið var með eins stigs forystu á lið Shaktyor. Willum Þór var á varamannabekk BATE þegar að liðið mætti Dinamo Minks á útivelli í dag og kom ekkert við sögu í leiknum. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli og allt stefndi í að stigið myndi duga BATE til sigurs í deildinni. Þegar að komið var fram í uppbótartíma í leik Shaktyor og Minsk var staðan þar 2-2 en í uppbótartíma skoraði Roman Begunov fyrir Shaktyor og kom þeim yfir. Artem Arkhipov tryggði liðinu 4-2 sigur á níundu mínútu uppbótartíma en sigurinn kom liðinu einu stigi yfir BATE. 

BATE þarf því að bíta í það súra epli að lenda í öðru sæti deildarinnar annað árið í röð en áður hafði liðið sigrað deildina síðustu 13 tímabil. Þetta er jafnframt fyrir deildartitill Shaktyor síðan árið 2005. Deildarkeppnin í Hvíta-Rússlandi fékk óvenju mikla athygli á þessu tímabili en deildin var nánast sú eina í heiminum sem gerði ekki hlé þegar að kórónuveirufaraldurinn varð til þess að nánast öllum íþróttakeppnum var frestað í vor. 

Willum Þór Willumsson spilaði 18 leiki með BATE í ár og skoraði í þeim þrjú mörk. Willum samdi við BATE í febrúar árið 2019 og er með samning sem gildir til sumarsins 2022.