Öll ferðalög jólasveinsins innan Írlands í desember verða undanþegin sóttvarnarreglum. Þá þarf sveinki ekki að fara í 14 daga sóttkví við komuna til landsins. Írska ríkisstjórnin tilkynnti þessa ákvörðun á fimmtudag. Simon Coveney utanríkisráðherra segist hafa unnið að málinu í margar vikur. „Það er mikilvægt að tilkynna öllum börnum í landinu að við metum ferðalög jólasveinsins nauðsynleg og því er hann undanþeginn 14 daga sóttkví. Hann fær að ferðast að vild um írska lofthelgi, og raunar írsk heimili líka,“ segir Coveney.
Ráðherrann segir að jólasveinninn hafi þegar staðfest komu sína. Hann sé ánægður með að Írar hafi tekið þetta skref á tímum þar sem allt jólahald verði líklega öðru vísi en fólk á að venjast.