Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Jólalegt um að litast á höfuðborgarsvæðinu

28.11.2020 - 19:47
Innlent · COVID-19 · Jól
Mynd: RÚV / RÚV
Fyrsti sunnudagur í aðventu er á morgun og víða jólalegt um að litast. Í miðborg Reykjavíkur voru krakkar að skemmta sér á skautum og í Heiðmörk voru fjölskyldur í leit að hinu fullkomna jólatré. Þá var líf og fjör á Thorsplani í Hafnarfirði í dag þegar jólaþorpið var opnað. Ljóst var að faraldurinn hafði ekki kveðið niður jólaandann hjá þeim sem mættu.

Árlega hefur verið mikill handagangur í öskjunni á jóla- og kökubasar Hringsins og kökurnar jafnvel verið uppseldar einungis klukkutíma eftir opnun. Vegna samkomutakmarkana er basarinn með breyttu sniði í ár og hafa hringskonur komið sér fyrir í verslunarrými í Smáralind þar sem opið verður til 6. desember.

Jafnframt var heldur betur jólalegt um að litast í Heiðmörk í dag en jólamarkaður Skógræktarfélags Íslands er haldinn allar aðventuhelgar við Elliðavatnsbæ. Þeir sem vildu vera snemma á ferðinni í jólaundirbúningi gátu keypt jólatré á fyrsta söludegi og gætt sér á heitu kakói í leiðinni.