Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hræktu á lögreglu og reyndu að frelsa handtekinn mann

28.11.2020 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér yfirlýsingu um mál þremenninga sem voru handteknir eftir að hafa reynt að hindra störf lögreglunnar í Kópavogi í morgun. Lögreglan segir mennina hafa haft uppi grófar hótanir, hrækt á lögreglumenn, barið og sparkað í lögreglubíla og reynt ítrekað að frelsa handtekinn mann.

Fram kemur í yfirlýsingu lögreglunnar að lögreglumenn hafi haft afskipti af ökumanni sem var grunaður um akstur undir áhrifum.  Þremenningarnir voru farþegar í bílnum og létu ófriðlega á vettvangi og höfðu uppi grófar hótanir. 

Þeir héldu áfram uppteknum hætti eftir að ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöðina í Kópavogi.  Þar börðu þeir og spörkuðu í lögreglubíla og reyndu ítrekað að frelsa ökumanninn úr haldi. Svo fór að þeir voru allir handteknir.  „Á meðal málsgagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV