Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Aldrei verið vissari“ um sjálfstæði Skotlands

epa08070679 SNP leader Nicola Sturgeon joins the Scottish National Party SNP's newly elected MPs for a group photo outside the V&A Museum in Dundee, Scotland, Britain, 14 December 2019.  EPA-EFE/ROBERT PERRY
 Mynd: epa
Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og formaður Skoska þjóðarflokksins, hefur „aldrei verið vissari" um að sjálfstætt Skotland verði að veruleika. Þetta mun koma fram í ræðu hennar á ársfundi Skoska þjóðarflokksins í dag, að því er segir í tilkynningu frá flokknum.

Á ársfundinum, sem fer fram í gegnum fjarfundarbúnað, mun Sturgeon segja stuðningsfólki sínu að möguleikinn og líkurnar á að Skotland segi sig úr lögum við afganginn af Stóra-Bretlandi hafi aldrei verið meiri en nú. „Sjálfstæðið er í sjónmáli - og með eindrægni okkar, auðmýkt og elju í huga, þá hef ég aldrei verið jafn viss og nú um að við munum ná því markmiði," segir í útdrætti úr ræðunni, sem sendur var fjölmiðlum.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið á fimmtudag sagðist Sturgeon telja eðilegt að efna til annarrar atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands „á fyrri helmingi næsta kjörtímabils" skoska þingsins, fari svo að kjósendur endurnýi umboð flokksins í kosningunum í maí næastkomandi. Skoðanakannanir benda eindregið til þess að sú verði raunin.

Boris Johnson og ríkisstjórn hans hafa útilokað að gefa grænt ljós á aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland en Sturgeon gefur lítið fyrir það og í ræðu sinni í dag mun hún segja Skota eiga „rétt á því að ráða sinni framtíð sjálfir."